Hable Con Ella (2002) ★★★⯪☆ 👍

Mynd um einmana karlmenn og eitraða ást.

Spænski leikstjórinn Pedro Almodóvar er gap í kvikmyndaáhorfi mínu. Þannig að ég valdi Hable Con Ella aðallega til að bæta aðeins fyrir það.

Hable Con Ella er ekki auðveld mynd. Nærri því um leið og hún byrjaði fékk ég óbragð í munninn út af dýraníðinu. Þarna er ógeðið raunverulegt og beint fyrir framan myndavélina.

Meginpartur Hable Con Ella er um tvo karlmenn og samband þeirra við hvorn annan og „sambönd“ þeirra við konur. Það er margt sem stuðar en ég er gjarn á að segja að við getum skilið ástæður án þess að nota þær til að afsaka.

Líklegast er réttast að setja Hable Con Ella í flokk með kvikmyndum sem tala gagnrýnið um karlmennsku. Vandamálið er aðallega að hérna hafa konurnar eiginlega enga rödd. Það er jafnvel talað fyrir þær en ekki við þær. Á mig virkar það samt sem gagnrýni á karlmenn sem vilja helst að konur þegi og séu sætar.

Hable Con Ella er á köflum mjög áhrifarík og að vissu marki skil ég vel hvers vegna fólk var rosalega hrifið af henni. En ég kemst ekki yfir allt hitt.

Maltin gefur ★★★★ og var í klappliðinu.

Óli gefur ★★★⯪☆.