Minningar um morð / Memories of Murder (2003) ★★★★⯪ 👍👍

Árið 1986 leita suður-kóreskir lögreglumenn að raðmorðingja.

Minningar um morð er önnur mynd leikstjórans Bong Joon-ho (Sníkjudýrin og Mickey 17) og kom honum á kortið (ekki að ég hafi fylgst nógu vel með á sínum tíma).

Minningar um morð náði að grípa mig strax. Þegar ég var hræddur um að hún myndi fara í hjólför tók hún alltaf sveig í frumlegri áttir. Á vissan hátt fannst mér hún kjöldraga þær brellur sem hefðbundnar löggumyndir (og þættir) nota til að spila með tilfinningar áhorfenda.

Eftir áhorfið kíkti ég á hvað fólk hafði að segja um myndina og hjó eftir að margir töldu að lögreglumennirnir væru ótrúverðugar persónur. Mér þótti þeir aftur á móti ákaflega raunverulegir miðað við það sem ég hef lesið um glæparannsóknir fyrri ára. Mögulega er þetta þó stundum gert of kómískt.

Einkunnagjöf er frekar erfið hérna. Mögulega er ég að halda aftur af mér af því mér finnst ég vera full örlátur með stjörnur. Sem er kannski ekki óeðlilegt þegar ég er að eltast við myndir sem eru á helstu topplistum gagnrýnenda og áhorfenda.

Óli gefur ★★★★⯪ en er á mörkunum með að hækka sig í fimm.