Together (2025) ★★★★☆👍👍

Par á fertugsaldri¹ gengur í gegnum erfitt tímabili og veltir fyrir sér hvort það hafi fórnað of miklu af sjálfu sér á altari ástarinnar. Líkamshryllingur.

Augljóslega elskum við öll Allison Brie fyrir ár hennar í Community (eða GLOW eða Mad Men). Mögulega hafa ekki allir jafn hlýjar tilfinningar í garð Dave Franco fyrir leik sinni í níundu þáttaröð Scrubs en ég lærði að elska hvað hann var óþolandi og svo lék hann auðvitað lykilhlutverk í Love Lies Bleeding, einni bestu mynd síðasta árs. Þau hafa verið lengi saman en ég man ekki eftir því að þau hafi áður leikið par.

Aðalpersónurnar í Together ákveða að flytja úr stórborginni í dreifbýlið. Þau eru bókstaflega í húsi í skóginum og það er bara eins og þau hafi ekki séð eina einustu hryllingsmynd áður. Aldrei eyða tíma í húsi í skóginum, hvað þá flytja þangað.

Together hefur ýmislegt að segja um ást og sambönd. Satt best að segja var ég næstumhissa að lagið Bodies með Smashing Pumpkins hafi ekki verið spilað í lokin. Ég hef auðvitað verið að hlusta á það töluvert undanfarið.

Ég var hrifinn af Together og hló mikið. Við erum sumsé með tvær frábærar hryllingsmyndir í bíó þessa daganna. Sem heild var þessi kannski betri en Weapons fær svo rosalegan stóran plús fyrir hvernig myndin var kláruð. Ef þið þolið hrylling (hvorug myndin er með þeim verstu) og hafið dökkan húmor þá ættuð þið að kíkja á þær.

Ég var minna hrifinn af þeirri vanvirðingu sem Smárabíó sýnir bíógestum sínum með því að byrja myndina ekki fyrren þrettán mínútum eftir auglýstan sýningartíma. Hverslags kjaftæði er þetta? Afleiðingin er augljóslega að sumir mæta seint og síðarmeir. Í þetta skiptið beindi einhver bjáni í leit að sætinu sínu símaljósinu beint í augun á mér á hápunkti spennandi upphafsatriðisins.

Óli gefur ★★★★ 👍👍

¹ Aldur hennar er reyndar aldrei nefndur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *