Rear Window (1954) ★★★★★👍👍🖖

Þegar ljósmyndari er fastur heima hjá sér fótbrotinn byrjar hann að hnýsast í einkalíf nágranna sinni með ófyrirséðum afleiðingum.

Hitchcock var fyrst leikstjórinn sem ég var meðvitaður um. Ég horfði á margar myndir hans þegar ég var líklega átta ára gamall. Ég get ekki nefnt hverjar af myndum hans það voru. Líklega var Rear Window ein af þeim.

Ljósmyndarinn er leikinn af Jimmy Stewart og Grace Kelly er unga fyrirsætan sem er alveg rosalega ástfanginn af honum þrátt fyrir aldursmuninn en hann er ekki jafn spenntur. Thelma Ritter leikur hjúkrunarfræðing sem stelur nær öllum atriðum sem hún er í.

Þó söguþráður Rear Window snúist um mögulegt morð fjallar hún aðallega um tengsl nágranna, hvaða innsýn þeir hafa í líf hvers annars og hvar þeir setja mörkin.¹

Hitabylgja gefur Hitchcock afsökun til að hafa alla glugga í þessum inngarði galopna og því er Rear Window uppfull af örsögum úr lífi fólksins. Við heyrum oftast ekki það sem sagt og því er eins og við séum að horfa á röð af þöglum stuttmyndum.

Ég er almennt á móti öllu þessu „Y², var samfélagsmiðill síns tíma“ en það er eiginlega ekki hægt að hugsa um líkindin milli gægjuhneigðar ljósmyndarans og því hvernig daglegt líf okkar er núna. Munurinn er auðvitað að fólkið sem við sjáum í Rear Window er yfirleitt ekki að reyna að sýnast eða sýna sig.

Þó ljósmyndarinn (Jimmy Stewart) sé aðalpersónan er hann afskaplega lítil hetja. Hann kemur ekki vel fram við kærustu sína (Grace Kelly) og hann er oft neikvæður í garð kvenna. Það er ekki það skrýtna heldur það að hann mætir mótstöðu, bæði frá konunum sem heimsækja hann og veruleikanum sjálfum. Skrýtnast er að Rear Window virðist hafa samúð með konunum sem virðist á skjön við það sem við vitum um Hitchcock.

Rear Window hefur haft gríðarleg áhrif og það er líklega til langur listi af t.d. sjónvarpsþáttum sem hafa apað eftir söguþræðinum, eða allavega aðstæðunum. Ég hef aldrei lagt í endurgerðina þar sem Christopher Reeve fékk hið „fullkomna hlutverk“ eftir slysið sitt.

Það sem kom helst á óvart er hve fyndin Rear Window er og þá er Thelma Ritter augljóslega langfyndnust.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ Rear Window hafði augljós og mikil áhrif á The ‘Burbs.

² Ein ástæða til að hata Musk er að það er ekki lengur hægt að segja „X var Y síns tíma“, sérstaklega ekki þegar um er að ræða samfélagsmiðla

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *