Þegar maður mætir í hús úti í sveit hittir hann fólk sem hann kannast við í fyrsta skipti og þau fara að segja hvert öðru sögur. Gamanhryllingsmynd.
Dead of Night er mynd sem endurómar í gegnum kvikmyndir og sjónvarpsþætti síðustu átta áratugi. Áhrifin eru gríðarleg. Þetta er að mörgu leyti eins og þættir af Twilight Zone sem hafa verið samtvinnaðir.
Nú er erfitt að ímynda sér hvernig það hefur verið að sjá Dead of Night árið 1945 (rétt eftir stríðslok). Voru hryllingssenurnar hryllilegri? Var golfatriðið ennþá fyndnara? Lokaatriði myndarinnar eru ennþá áhrifaríkt.
Leikstjórar Dead of Night eru fjórir og sjá hver um sinn hluta myndarinnar. Sá eini sem ég þekkti raunverulega fyrir fram er Charles Crichton sem leikstýrði A Fish Called Wanda rúmum fjörutíu árum seinna. Hann sá um fyndnasta¹ hluta myndarinnar.
Af leikurum má helst nefna Michael Redgrave (faðir þriggja leikara sem einnig bera ættarnafnið Redgrave og er Vanessa líklega best þekkt). Sally Ann Howes var fimmtán ára þegar myndin kom út en er væntanlega best þekkt fyrir að leika Truly Scrumptious² í Chitty Chitty Bang Bang (1968).
Sögurnar koma úr nokkrum mismunandi áttum, ein er til dæmis byggð á sögu H. G. Wells og önnur vísar í raunverulegt morðmál frá nítjándu öld (morðinginn³ lést hundrað ára gamall árið áður en myndin kom út).
Dead of Night virkar á eigin forsendum í dag og á greinilega sinn sess í kvikmyndasögunni.
Maltin gefur ★★★★.
Óli gefur ★★★★★.
¹ Ég var hrifinn af þessu atriði en mér sýnist ég vera í minnihluta.
² Ian Fleming skrifaði bókina og ber því væntanlega ábyrgð á þessu nafni eins og mörgum „stórfyndnum“ kvenmannsnöfnunum í James Bond.
³ Það eru víst ekki allir sammála um hver morðinginn hafi verið.