The Long Walk (2025) ★★★★☆👍👍

Hópur ungra karlmanna tekur þátt í langgöngukeppni þar sem þeir hafa allt að vinna en öllu að tapa.

The Long Walk er ein af þeim bókum sem Stephen gaf út undir dulnefni. Reyndar vill svo til að í nóvember kemur ný útgáfa af The Running Man (í leikstjórn Edgar Wright) sem var upprunalega gefin út undir sama nafni. Stórt ár fyrir Richard Bachman.

Þó ég hafi lesið margar bækur Stephen King hef ég aldrei lesið The Long Walk þannig að ég vissi lítið um söguþráðinn og ekkert um útkomuna. Myndin snýst fyrst og fremst um sambandið sem myndast milli þeirra karlmanna sem taka þátt í göngunni miklu og hugleiðingar þeirra um lífið í alræðisríki.¹

Leikstjóri myndarinnar Francis Lawrence er líklega þekktastur fyrir að leikstýra Hungurleikjamyndum þannig að hann finnur sig greinilega í dystópíum. Handritshöfundurinn J.T. Mollner leikstýrði og skrifaði eina bestu mynd síðsta árs, Strange Darling.

Ef ég ætti að flokka The Long Walk myndi ég kalla hana hryllingsmynd, sérstaklega af því að ofbeldið minnir helst á slíkar myndir. En ég var mjög hrifinn. Hún greip mig frá upphafi til enda. Persónurnar voru áhugaverðar og leikararnir góðir.

Aðalleikararnir eru ekki stór nöfn en Judy Greer og Mark Hamil eru í smærri hlutverkum.

Óli gefur ★★★★☆👍👍.

¹ Þó efni The Long Walk endurspegli að mörgu leyti ástandið í Bandaríkjunum í dag skilst mér að í bókinni sé ljóst að verið sé að fjalla um Víetnamstríðið.