The Sound of Music (1965) ★★★★★👍👍🖖

Þegar ung kona er send til að gerast kennslukona sjö barna gamals kapteins í Austurríki á seinni hluta fjórða áratugarins finnst henni andrúmsloftið þar jafnvel meira þrúgandi en í klaustrinu sem hún var í áður.

The Sound of Music er klassískur söngleikur eftir Rodgers og Hammerstein byggður á sannri¹ sögu von Trapp fjölskyldunnar. Í aðalhlutverkum eru Julie Andrew (nýfræg eftir Mary Poppins) og Christopher Plummer (alltof ungur með gervi-grátt hár og síðan sár yfir því að söngurinn hans var ekki notaður).

Yfir það heila voru von Trapp börnin frábær (þó sú sextán ára stúlkan hafi ekki litið út eins og táningur). Leikferill flestra þeirra var stuttur og/eða snubbóttur. Nicholas Hammond (Friedrich) hefur þó leikið í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Síðasta hlutverk hans í stórri mynd er líklega Once Upon a Time in Hollywood. Heather Menzies (Louisa) lék síðan aðalhlutverkið í Piranha. Það mætti halda að Tarantino og Dante séu nördar.

Það er ekkert leyndarmál að ég er veikur fyrir söngleikjum en ég bjóst einhvern veginn við að The Sound of Music yrði of væmin fyrir mig. Við ákváðum að skreppa þar sem myndin var sýnd í sérstakri Goth² sýningu hjá Smárabíó.

Þó ég hefði aldrei séð hana áður höfðu flest lögin Í The Sound of Music síast inn hjá mér. Það kom mér á óvart að myndin er frábær. Ekki nóg með að ég hafi verið að syngja með nær alla myndina³ heldur var ég síhlæjandi. Þetta er ákaflega fyndin mynd.

Upphafsatriðið er auðvitað klassískt og það er erfitt að ímynda sér nákvæmnina sem þurft hefur til því auðvitað er þetta tekið upp með þyrlu. Það var gríðarlega flókið og grey Julie Andrews fauk allavega einu sinni um koll.

Þó var uppáhaldsatriðið mitt í The Sound of Music þegar Christopher Plummer tjáði tilfinningar sínar á skýran hátt þegar hann sneri aftur eftir mánaðarlangt ferðalag.

Leikstjóri The Sound of Music er Robert Wise sem er einnig þekktur fyrir að klippa myndir eins og Citizen Kane og The Magnificent Ambersons. Hann leikstýrði líka fyrstu Star Trek myndinni … sem mætti kannski gleymast.

Maltin kemur á óvart og gefur Tónaflóðinu ekki nema ★★★½.

Óli ætlar að ganga skrefinu lengra og segja ★★★★★👍👍🖖 því þetta er frábær mynd sem eldist vel og er með góðan og fallegan andfasískan boðskap.

¹ Nokkurn veginn.

² Lélegt val á stafagerð var fyndið en ekki hvernig Smárabíó klúðraði hléinu. Síðan var spurningaleikurinn óþarfur. Af hverju kemst bíóið upp með að auglýsa sýningu klukkan 16:00 þegar myndin byrjar ekki fyrren 16:20? Svo virtist sýningartjaldið vera ákaflega vannýtt, breiðar svartar rendur fyrir ofan og neðan og beggja vegna við myndina eins og gamalt YouTube myndband.

Þetta var sumsé 60 ára afmælissýning en einhver hefur ekki kunnað að gera <sup>th</sup>.

³ Ég söng lágt.