Queen Christina (1933) ★★⯪☆☆🫴

Kristína er krýnd konungur Svíþjóðar en verður minna og minna spennt fyrir hlutverki sínu.

Mín yfirborðskennda þekking á sögu Svíþjóðar er nægileg til þess að ég þekki aðeins til Kristínu. Uppáhaldið mitt er auðvitað að lögin gerðu ekki ráð fyrir ríkjandi drottningu en sögðu ekkert um að konungurinn þyrfti að vera karlmaður. Kynusli.

Ég veit líka að saga Kristínu var töluvert áhugaverðari en myndin Queen Christina gefur til kynna. Það er voðalegt að breyta þessu í einfeldningslega ástarsögu.

Í aðalhlutverki Queen Christina er sænsk leikkona sem hóf líf sitt sem Greta Lovisa Gustafsson en er betur þekkt sem Greta Garbo. Á móti henni leikur John Gilbert sem er oft ranglega sagður hafa verið með of lélega rödd fyrir talmyndir.¹ Garbo og Gilbert léku saman í fjórum myndum og áttu á tímabili í ástarsambandi en sambandi þeirra lauk endanlega þegar hann hélt við aukaleikara við tökur á þessari mynd.

Queen Christina er á köflum mjög fyndin og á stundum hugsaði ég til The Great með Elle Fanning. Því miður er hún oftar þurr og óáhugverð.

Queen Christina er frekar djörf og mig grunar að það eigi þátt í orðspori hennar. Í einu atriði kyssir Garbo mótleikkonu sína á munninn.² Hún var gerð árið áður en Hays-ritskoðunin tók völdin og gefur sterklega til kynna að persónur myndarinnar lifi kynlífi(!). Sjokkerandi.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★⯪☆☆🫴.

¹ Í Singin’ in the Rain er gert grín að kjánalegum línum sem John Gilbert þurfti að fara með í einhverri af fyrstu talmyndum sínum. Leonard Maltin segir raunverulegu ástæðuna fyrir hnignun ferils hans hafi verið slagsmál við Louis B. Mayer (seinna M-ið í MGM).

² Garbo er sögð hafa verið tvíkynhneigð sem gerir kossinn áhugaverðari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *