Öldruð rokkhljómsveit¹ tekst á við mótlætið sem felst í dvínandi vinsældum og afskiptasemi plötufyrirtækisins sem vill hemja listræna tjáningu þeirra. Grínheimildarmynd.
Ég hef séð ótal heimildarmyndir um rokkhjómsveitir og rokkara. Það hve This is Spinal Tap nær að líkja eftir þeim er magnað. Þetta á bæði við um stíl og efnivið. Þessar persónur eru allar kunnuglegar. Það hefur alltaf verið ákveðinn fáránleiki í kringum rokktónlist og hér hefur hann verið skrúfaður upp í ellefu.
Það gæti verið ákveðinn annmarki á This Is Spinal Tap til framtíðar að fólk þekkir ekki vísanirnar. Samt er þetta líklega fyndið hvort eð er.
Rob Reiner leikstýrði This Is Spinal Tap og er einn af höfundum handritsins. Þetta er á hans gullnu árum þar sem hann leikstýrði röð af klassískum myndum án þess þó að vera metinn að verðleikum.
Hljómsveitin sjálf, og einu stöðugu meðlimirnir til dagsins í dag, eru Christopher Guest (lávarður og herra Jamie Lee Curtis), Michael McKean og Harry Shearer (The Simpsons).
Það er röð af frábærum leikurum í gestahlutverkum. Ed Begley Jr. sést á trommunum en talar ekkert, Anjelica Huston er hönnuðurinn sem gerir nákvæmlega það sem beðið var um, Billy Crystal og Dana Carvey eru þjónar, Fred Willard hittir hljómsveitina á herstöðinni, Paul Shaffer skipuleggur plötuáritun, Bruno Kirby er bílstjóri og Fran Drescher vinnur fyrir plötufyrirtækið.
Maltin gefur ★★★.
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.
¹ Þess tíma þar sem okkur fannst fertugir kallar að spila rokk aldraðir.