Rakari lendir í gyðingaofsóknum í landi sem er augljóslega ekki Þýskaland því einræðisherrann heitir Hynkel en ekki Hitler.
Við Gunnsteinn höfum stefnt á að horfa á The Great Dictator í mörg ár síðan við sáum Einræðisherrann í Þjóðleikhúsinu. Nú þegar við nýttum tækifærið til að sjá hana í bíó er liðið of langt síðan að ég geti komið með gáfulega greiningu á tengslum myndar og leikrits.
Chaplin leikur rakarann og Hynkel. Þáverandi eiginkona hans Paulette Goddard leikur aðalkvenhlutverkið.
Chaplin hafði undirbúið gerð The Great Dictator í einhver ár á tímabili þar sem stóru kvikmyndaframleiðendurnir voru enn hræddir við að styggja Nasista. Síðan vildi svo til að upptökur hófust stuttu eftir innrás Þjóðverja í Pólland.
Þó The Great Dictator hafi verið gerð áður en glæpir Nasista komu nákvæmlega í ljós þá fjallar hún að miklu leyti ofsóknir gegn gyðingum¹. Að þessu leyti er hún töluvert áhrifaríkari en To Be or Not to Be (1942).
Brandararnir í The Great Dictator eldast misvel og sumt er full endurtekningarsamt. Það er samt nóg af atriðum sem eru ennþá fyndin þannig að myndin missir sjaldan dampinn. Einkunn mín væri væntanlega allavega stjörnu lægri ef ekki væri fyrir lokaræðuna. Hún er stórfengilega og nær að greina samtíma okkar betur en kvikmyndir frá þessu ári.
Maltin gefur ★★★½.
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.
¹ Chaplin var ekki gyðingur þó hann hafi oft verið „ásakaður“ um það. Honum þótti það samt ekki eitthvað sem hann þyrfti að afneita.