Uptown Girls (2003)★★★★☆👍👍

Ung kona í New York lifir á arfi foreldra sinna en þarf skyndilega að standa á eigin fótum, sem felst meðal annars í að fást við átta ára stelpu.

Á yfirborðinu er fátt sem bendir til þess að Uptown Girls sé sérstaklega góð. Jú, Brittany Murphy¹ og mjög ung Dakota Fanning. Síðan fylgir annar Clueless leikari, Donald Faison, með í kaupunum. Svo eru þarna Heather Locklear og House MD leikarinn Jesse Spencer.

Murphy og Fanning eru frábærar. Þær ná að selja fyrirsjáanlegar línur og kjánalegt grín. Kannski kaupir þú Uptown Girls ekki. Allt í lagi. Þetta er reyndar fyrst og fremst mynd um að takast á við sorg (eða að takast ekki á við sorg).

Flestir gagnrýnendur hötuðu Uptown Girls og áhorfendur voru ekki mikið hrifnari. Það voru undantekningar eins og Roger Ebert sem líkti Brittany Murphy við Lucy Ball sem er ekki fjarri lagi.

Fyrir utan það hve hrifinn ég var af Uptown Girls kom mér mest á óvart að kvikmyndatakan er frábær. Þar er Michael Ballhaus² á ferðinni. Leikstjórinn Boaz Yakin er líklega frægastur fyrir Remember the Titans (einnig með Donald Faison).

Í lok myndarinnar birtast nokkrar stjörnur í gestainnliti.

Maltin gefur ★★½ og tók var töluvert hrifnari en gagnrýnendur almennt.

Óli gefur ★★★★☆👍👍.

¹ Það var víst búið að gera tveggja þátta heimildarmynd What Happened, Brittany Murphy? (2023).

² Nafn sem ég lærði mjög ungur af því … Ball-haus. Hann vann að ótal myndum, s.s. Bram Stoker’s Dracula.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *