Rithöfundur sem hatast við fyrrverandi eiginkonu sína kynnist einföldum manni sem hatar mömmu sína.
Throw Momma From the Train er mynd sem ég hef oft hugsað um að horfa á en bjóst við svo litlu að ég lét það vera þar til núna. Eða svo hélt áður en myndin varð fullkunnugleg og ég fattaði að ég hefði séð hana áður.
Í aðalhlutverkum eru Billy Crystal og Danny DeVito sem einnig leikstýrði myndinni. Kate Mulgrew er hér í aukahlutverki (töluvert áður en hún tók að sér skipstjórn Voyager).
Stjarna myndarinnar eru Anne Ramsey sem leikur mömmuna. Ferill hennar er áhugaverður. Hún hafði verið að í nokkurn tíma áður en hún fékk krabbamein í vélinda. Hún gekkst undir skurðaðgerð þar sem hlutar af kjálka hennar og tungu voru fjarlægðir.
Merkilegt nokk þá blómstraði ferill Anne Ramsey í kjölfarið.
Ári eftir aðgerðina lék hún hlutverkið sem hennar er helst minnst fyrir, Mama Fratelli í The Goonies (1985). Margar myndir fylgdu í kjölfarið (svo sem Throw Momma From the Train). Hún lést árið 1988 þegar krabbameinið sneri aftur. Samkvæmt því sem ég hef heyrt naut hún þessarra síðustu ára. Hún lék í fimm kvikmyndum sem voru frumsýndar eftir dauða hennar.
Throw Momma From the Train er ekki slæm en ekkert sérstaklega góð heldur. Hún náði nokkrum sinnum að kreista fram hlátur frá mér en ekki mikið meira en það.
Maltin gefur ★★½.
Óli gefur ★★⯪☆☆🫴.