Brittany Murphy varð fræg eftir leik sinni í kvikmyndinni Clueless (sem ég myndi kalla eina bestu gamanmynd síns tíma og eina bestu unglingamynd allra tíma). Hún fékk nokkur góða dramatísk hlutverk en sjaldan í aðalhlutverki. Stærstu myndirnar hennar voru markaðsettar á slíkan hátt að ég taldi þær ekki fyrir mig. Ein af þeim var auðvitað Uptown Girls sem mér þótti frábær.
Árið 2009 lést Brittany Murphy skyndilega einungis 32 ára og dánarorsökin var nokkuð á reiki. Það hafa komið ýmsar tilgátur í gegnum tíðina og What Happened Brittany Murphy? fjallar töluvert um þær.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að horfa á þessa heimildarþætti var að í henni er til dæmis talað við Amy Heckerling leikstjóra Clueless. Af því sem ég veit um hana er ég nokkuð viss um að hún hafði fulla trú á að hérna yrði vandað til verka.
Þegar hún var um tvítugt, og jafnvel fyrr, fékk Brittany Murphy skýr skilaboð úr ýmsum áttum að hún væri of þung. Það sem eftir var ævi sinnar virðist hún hafa glímt við átröskun. Athugasemd um að hún væri knúsanleg en ekki „ríðileg“ sat greinilega lengi í henni. Það er líka skelfilegt að hlusta á atriði úr þætti Howard Stern þar sem hann reynir að æsa þáverandi kærasta hennar upp með því að segja honum að hún hafi verið „feita stelpan“ í Clueless.
Það hefur verið mikið skrifað og sagt um það hvernig farið var með ungar frægar konur í skemmtanaiðnaðinum framan af þessari öld. Eitruð umfjöllun og dómharka gerði líf margra þeirra að helvíti. Þær höfðu fæstar gert meira, og líklega minna, af sér en ungir karlar í sömu stöðu.¹
What Happened Brittany Murphy? reynir að fjalla um ógeðið án þess að blandast í ógeðið en það tekst varla. Það er talað við viðbjóðslega slúðrarann Perez Hilton sem reynir að gera upp við sinn þátt í meðferðinni á Brittany. Það hefði alveg mátt tala bara um hann.
Árið 2006 giftist Brittany breskum svikahrappi sem tók völdin í lífi hennar. Hann gerðist, þrátt fyrir algjört reynsluleysi, umboðsmaður hennar og rústaði ferli hennar. Hann virðist líka hafa ýtt undir átröskun hennar.
Þegar Brittany Murphy veiktist alvarlega gerði hann ekkert til þess að koma henni undir læknishendur. Ef hún hefði farið á spítala hefði hún að öllum líkindum lifað þessi veikindi af. Nokkrum mánuðum seinna lést eiginmaður hennar sem varð til þess að allskonar kenningar fóru af stað en engar sem eru studdar gögnum.
What Happened Brittany Murphy? fjallar líka um hvernig andlát hennar varð til þess að hún fékk aftur soralega meðferð. Í þetta sinn á samfélagsmiðlum. Það er lögð sérstök áhersla á einhverja áhrifavalda sem koma með tilgátur um samsæri og allskonar rugl. Það hefði alveg mátt minnka þann hluta. Ég var fljótt búinn að fá nóg af því.
Sorgleg saga um unga konu sem verðskuldaði betra. Horfið frekar á Clueless eða Uptown Girls.
¹ Var þetta betra hér áður fyrr? Ekki endilega að allvega var opinber umræða aðeins smekklegri, allavega orðfærið. Aftur á móti var hryllilegt að horfa á heimildarþáttinn um Pretty Baby: Brooke Shields (sem ekki skyldi rugla saman við kvikmyndina Pretty Baby). Mér þótti svo ógeðfellt hvernig talað var við hana og um hana að ég gat ekki einu sinni horft á seinni þáttinn.
