Hópur ungra kvenna í háskóla reynir að hjálpa hinum þunglyndu og illa lyktandi. Ekki endilega sama fólkið en sama meðal.
Whit Stillman er leikstjóri sem ég hef ekki fylgst með þannig að þegar ég heyrði talað um hann í hlaðvarpinu Critically Acclaimed ákvað ég að kíkja. Damsels in Distress var nefnd sem möguleg fyrsta mynd fyrir fólk sem er hrifið af Gerwig¹.
Ég renndi alveg blint og varð svolítið gáttaður fyrstu mínúturnar. Allt í einu hrökk ég í gírinn og fannst Damsels in Distress alveg stórkostlega fyndin. Hún fór aldrei þangað sem ég bjóst við sem gerði áhorfið skemmtilegt. Það er samt ljóst að hún er ekki allra.
Í aðalhlutverkum eru Greta Gerwig², Lio Tipton, Adam Brody, Megalyn Echikunwoke og Carrie MacLemore. Alia Shawkat og Aubrey Plaza eru í litlum hlutverkum.
Maltin gefur ★★ en segir að Damsels in Distress sé innilega skrýtin.
Óli gefur ★★★★☆👍👍.
¹ Hún heitir Greta og mér finnst rangt að tala um Gretu Gerwig en mér líður samt næstum asnalega að gera það ekki. Erfitt líf. Gott að geta notað nefnifall.
² Yndislegt nefnifall.
