Blaðamenn reyna að grennslast fyrir um hvort einhver nátengdur Nixon gæti mögulega kannski tengst ólöglegum gjörningum.
All the President’s Men er gerð eftir samnefndri sannsögulegri bók Bob Woodward og Carl Bernstein um rannsókn þeirra á Watergate hneykslinu.
Alan J. Pakula leikstýrir All the President’s Men. Dustin Hoffman og Robert Redford eru í aðalhlutverkum. Jason Robards, Jack Warden, Ned Beatty og alveg haugur af öðrum eru með. Ég missti af F. Murray Abraham í hlutverki löggu sem handtekur píparagengið. Síðan eru konur í smærri hlutverkum.
Þessi mynd var gerð af því að Robert Redford vildi láta gera hana. Hann var nógu stór stjarna til að keyra það í gegn.
William Goldman er skrifaður fyrir handriti All the President’s Men en það er umdeilt. Redford og Pakula endurskrifuðu handrit hans og töldu sig eiga meirihlutann af því sem var kvikmyndað. Samanburður á þessum tveimur útgáfum hefur víst leitt í ljós að mest kom frá Goldman sem var mjög bitur yfir þessari reynslu.
Ég man alltaf eftir að Siggi Davíðs, frændi og sögukennari, fór mjög vel í gegnum Watergate-hneykslið í tíma. Hans söguskýring var sú að í raun hefði almenningi verið nokkuð saman um innbrotin og allt það. Hins vegar hefði fólk verið hneykslað á því hvernig talað var um kjósendur á upptökum Nixon.
Mig minnir líka að Siggi hafi verið á því að Alexander Haig væri Deep Throat¹ en við vitum núna að persónan er aðallega byggð á FBI-manninum Mark Felt. Það eru reyndar ákveðnar vísbendingar í All the President’s Men að þeir hefðu ákaflega góða innsýn í skýrslur Alríkislögreglunnar.
Það er ótrúlegt að All the President’s Men kom út tveimur árum eftir að Nixon sagði af sér. Það er líka helsti veikleiki myndarinnar því hún kafar ekkert í sjálfan aðdraganda afsagnarinnar heldur stoppar frekar skyndilega, líklega á sama tímapunkti og bókin endaði. Woodward og Bernstein gáfu einmitt út aðra bók um síðustu daga Nixon sama ár og þessi mynd kom út.
Auðvitað hefur þessi mynd margt að segja um samtíma okkar. Aðallega hve skelfilegt er að blaðamennska sé að fjara út.² Síðan virðist ótrúlega mörgu fólki í dag vera alveg sama um hve spilltur Bandaríkjaforseti sé.³
Kannski horfa fljótlega á The Post?
Maltin gefur ★★★★.
Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖.
¹ Þegar ég sá All the President’s Men fyrst fattaði ég ekkert að Deep Throat væri vísun í samnefnda klámmynd.
² Bob Woodward hefur auðvitað sjálfur fjarað út sem blaðamaður. Næsta stóra bók hans var Wired sem fjallaði um John Belushi. Það eftirminnilegasta við þá bók er mögulega hvernig hann talar um pönkhljómsveitina Fear. Minnir að hann hafi talið hrifningu Belushi á þeirri tónlist vera afleiðing vímuefnanotkunnar.
³ Svo skrifaði Woodward líka um Trump og allt það mál var glatað.
