The Rocky Horror Picture Show (1975) ★★★★☆👍👍🖖

Ferkantað par með sprungið dekk leitar hjálpar í dularfullum kastala.

Ég sá The Rocky Horror Picture Show í fyrsta skiptið í enskutíma Í Lundarskóla þegar ég var í sjöunda bekk. Þar áður spilaði ég tölvuleikinn á Amstrad.

The Rocky Horror Picture Show er költmynd. Hún floppaði á sínum tíma en var uppgötvuð í miðnætursýningum¹ þar sem áhorfendur fóru að syngja með, mæta í búningum og leika atriðin. Myndin hefur verið í bíóhúsum frá því hún kom út.² Í þeim borgum þar sem fóru fram miðnætursýningarnar á Rocky Horror urðu þær mikilvægar í samfélagi hinsegin fólks.

Í aðalhlutverkum The Rocky Horror Picture Show eru Tim Curry, Susan Sarandon, Barry Bostwick (borgarstjórinn í Spin City) og Richard O’Brien³ höfundur söngleiksins. Meat Loaf er í minna en þó áberandi hlutverki.

Ef við tökum Frank-N-Furter (Tim Curry) bókstaflega er hann hættulegur skúrkur og skíthæll. Það er rökréttara að líta á hann og gjörðir hans sem táknrænar fyrir uppreisn gegn bælandi samfélagi sem leyfir fólki ekki að lifa lífi sínu í friði. Það er allavega boðskapurinn sem aðdáendur hafa tekið til sín.

Fyrir mitt leyti er stóri vandinn við The Rocky Horror Picture Show að mörg lögin eru auðgleymanleg. The Time Warp er langbesta lagið. Hin eru meira skemmtileg en góð og í mörgum þeirra er ég bara að bíða eftir viðlaginu eða góðu pörtunum.

Maltin gefur ★★★.

Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖 .

¹ Rocky Horror var kannski ekki fyrsta myndin sem varð vinsæl vegna slíkra sýninga. Sýruvestrinn El Topo eftir Alejandro Jodorowsky kom á undan.

² Veit ekki alveg hvernig covid-tímabilið spilaði þar inn í.

³ Því miður hefur Richard O’Brien hefur sagt heimskulega hluti um trans fólk síðustu áratug. Hann skilgreinir sig samt sjálfur sem utan hefðbundinnar kynjatvíhyggju sem gerir tal hans um „alvöru konur“ sérstaklega kjánalegt.

Það að ætla að skilgreina hvaða konur séu „alvöru“ er ekki bara málefni sem trans fólk (og stuðningsfólk þeirra) þarf að hafa áhyggjur af. Í gegnum tíðina hafa ýmsir verið duglegir að stimpla allskonar konur sem óekta. Það getur verið af því þær uppfylla ekki ákveðin útlitsleg skilyrði, af því þær ekki eiga börn, af því þær eru samkynhneigðar … Þetta er mjög eitruð umræða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *