Barnslegur maður leggur í háskaför í leit að reiðhjólinu sínu.
Af einhverjum ástæðum tók það mig 40 ár að sjá Pee-wee’s Big Adventure. Hún hefur samt verið á listanum mínum í langan tíma. Þegar ég sá færi á að sjá hana í bíó fór ég og tók son og frænku með. Ég vissi samt fyrirfram um leyndardóma Alamó.
Pee-wee Herman er persóna leikin af Paul Reubens sem varð til þegar leikarinn var hluti af Groundlings-spunahópnum¹. Persónan var ekki alltaf barnvæn en þróaðist, varð hægt og rólega vinsælli þar til skaparanum var boðið að gera kvikmynd um hann.
Paul Reubens var í öfundsverðri stöðu því hann mátti velja leikstjóra. Hann tók óvænta ákvörðun og bað um lítt þekktan leikstjóra sem hafði vakið athygli fyrir stuttmyndir sínar. Tim Burton hafði þá nýlega verið sparkað af Disney sem var ekki ánægt með þessar myndir.
Handrit Pee-wee’s Big Adventure var skrifað af Reubens, Michael Varhol og hinum goðsagnakennda Phil Hartman (sem einnig kom úr The Groundlings). Þeir kunnu ekki að skrifa kvikmyndahandrit þannig að þeir lása frægustu bók um efnið, Screenplay: The Foundations of Screenwriting eftir Syd Fields, og mótuðu söguþráðinn til að módelinu sem þar er kynnt.
Það þurfti að hafa tónlist í myndinni og Tim Burton og Paul Reubens tóku þá furðulegu ákvörðun að bjóða lítt þekktum tónlistarmanni úr tilraunakenndu hljómsveitinni Oingo Boingo starfið. Danny Elfman var tregur til en samþykkti. Þar hófst samstarf leikstjóra og tónskálds sem hægt er að líkja við Spielberg/Williams og Hitchcock/Herrmann.
Fyrsta spurningin sem ég spurði, bókstaflega upphátt, eftir að hafa horft á Pee-wee’s Big Adventure var: Af hverju finnst mér Pee-wee Herman ekki einfaldlega óþolandi? Persónan er óþolandi týpa og ætti að pirra mig alla leið til helvítis. Í staðinn hló ég og vildi að hann fengi hjólið sitt til baka.
Vegferð Pee-wee um Bandaríkin er uppfull af óvenjulegum persónum og skemmtilegum atvikum. Sumsé, ég hló oft og mikið. Fæstar myndir sem eru skrifaðar „eftir bókinnni“ virka jafn vel og Pee-wee’s Big Adventure.
Við sjáum að Tim Burton hafði veruleg áhrif á myndina. Stíllinn er greinilega hans, sérstaklega í draumaatriðum. Jafnvel þegar Pee-wee er bara að lýsa draumi sá ég strax fyrir mér stopphreyfimynd að hætti Burton.
Pee-wee’s Big Adventure er vísanamynd, sumsé hún er það sem var yfirleitt kallað póstmódernísk en er nú oft flokkað sem „meta“. Þetta er mynd sem vísar í aðrar myndir og sjálfa sig. Það er til dæmis spunnið skemmtilega með vísun í Psycho.
Það koma fram ótal leikarar í Pee-wee’s Big Adventure. Elizabeth Daily leikur unga konu sem líkar við Pee-wee. Diane Salinger er gengilbeina með gullhjarta. Cassandra Peterson (helst þekkt sem Elvira), einn besti vinur Paul Reubens, á skemmtilegt innlit á mótorhjólabar.
Milton Bearle sést og segir hluta af brandara sem er greinilega um frægasta vin hans. Phil Hartman er í litlu hlutverki sem ég bara missti af. Morgan Fairchild og James Brolin birtast í hálfgerðum gestahlutverkum.
Lexía myndarinnar er að fólk ætti að kunna að meta fólkið í kringum sig og lögreglan ætti að taka reiðhjólaþjófnað alvarlega í stað þess að trufla fólk sem er að reyna að njóta tíma síns í bíósal.²
Maltin gefur ★★½ og það passa alveg við hann.
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.
¹ The Groundlings er mjög áhrifamikill hópur sem hefur í gegnum tíðina fóstrað fólk eins og: Will Ferrell, Will Forte, Kathy Griffin, Jennifer Coolidge, Jon Lovitz, Melissa McCarthy, Craig T. Nelson og Pat Morita.
² Ég hef ekki kafað neitt ofan í tilgátur um að Pee-wee’s Big Adventure vísi sérstaklega í Reiðhólaþjófana/Ladri di biciclette (1948) en það er alveg áhugavert.
