Ungur svikahrappur fær þjálfun frá sér reyndari hrappi til þess að framkvæma stórt svindl.
Þegar ég sá The Sting fyrst, sem krakki, fannst mér hún frábær. Næst fannst mér hún óspennandi. Þetta var líklega þriðja skiptið.
Þrátt fyrir að vera oft stillt upp sem klassísku tvíeyki á hvíta tjaldinu léku Paul Newman og Robert Redford einungis saman í tveimur myndum. The Sting og Butch Cassidy and the Sundance Kid. Ég lét duga að sjá þá síðarnefndu einu sinni.
Það eru ótal kunnugleg andlit í The Sting. Efst á lista eru Charles Durning og Robert Shaw. Eileen Brennan, Sally Kirkland, Ray Walston, Harold Gould, Jack Keheo og svo framvegis. Ég tók ekki eftir Kathleen Freeman sem var víst í pínulitlu hlutverki.
Eitt andlit var ákaflega kunnuglegt í fjarlægð en ekki í nærmynd. Robert Earl Jones var mjög líkur syni sínum James Earl Jones.
George Roy Hill leikstýrði The Sting (og Butch Cassidy and the Sundance Kid). Hann ber væntanlega ábyrgð á tónlistarvali sem gæti verið það eftirminnilegasta við myndina. Tónskáldið Marvin Hamlisch aðlagaði píanóverk Scott Joplin til að skapa skemmtilega stemmingu … sem passaði alls ekki því myndin gerist á fjórða áratugnum en þessi „ragtime“ tónlist var vinsælust um og uppúr aldamótunum.
Meiripart myndarinnar var ég að rembast við að muna hvað aðallagið héti og þegar í lokaatriði hallaði ég mér að Gunnsteini og hvíslaði „The Entertainer“.
The Sting er skemmtileg. Það að hún vann Óskarinn (m.a.) sem besta mynd ársins 1973 gefur henni yfirbragð gæða sem hún býr ekki yfir. Leikararnir bæta að miklu leyti upp fyrir það.
Maltin gefur ★★★½.
Óli gefur ★★★⯪☆👍
