Nokkrir kúrekar (bókstaflega að reka kýr) lenda í útistöðum við nautgripabarón.
Hversu marga vestra hefur Kevin Costner gert? Fleiri en ég hef séð allavega. Open Range er það sem hefur verið kallað endurskoðunarvestri.¹ Mörk góðs og ills eru loðin og hetjurnar ófullkomnar. Besta atriði myndarinnar er einmitt þegar persónurnar deila um muninn á því að myrða og drepa. Þessi innri barátta flæddi út og það var raunverulega taugatrekkjandi. Í heild er þetta mjög traustur vestri.
Meðleikarar Kevin Costner eru Robert Duvall, Annette Benning, Michael Gambon, Diego Luna og mér þótti sérstaklega gaman að sjá Abraham Benrubi sem verður alltaf The Kube² í mínum huga. Þetta var líka síðasta mynd Michael Jeter sem var í töluverðu uppáhaldi hjá mér.³
Maltin gefur ★★★.
Óli gefur ★★★⯪☆👍
¹ Slíkar myndir ögra þeim hugmyndum sem töldust sjálfgefnar í vestrum fyrri ára. Það væri hægt að kalla Dollaramyndir Sergio Leone endurskoðun en mér finnst hugtakið falla betur að bandarískum kvikmyndum. Það væri hægt að miða fæðingu þeirra við afnám Hays-kvikmyndaritskoðunarinnar árið 1968. Þá hurfu reglur um skýrt afmarkaða línu milli góðs og ills. Frægasti endurskoðunarvestrinn gæti verið Unforgiven.
Auðvitað voru gerðar myndir sem ögruðu staðalmyndum um vestra fyrir 1968. High Noon (sem virðist ekki vinsæl meðal minnar kynslóðar) snýr mörgu á haus og þá sérstaklega persóna Grace Kelly. The Man Who Shot Liberty Valance segir áhorfendum að efast. En sú besta sem ég hef séð er The Ox-Bow Incident.
² Parker Lewis Can’t Lose
³ Ég man fyrst eftir Michael Jeter úr meinlausa Burt Reynolds þættinum Fólkið í Forsælu en mögulega var hann eftirminnilegastur í The Fisher King.
