Tveir Bandaríkjamenn eru beðnir ítrekað um að halda sig á veginum en fara þess í stað út á heiðina.
Mér finnst eins og ég hafi einhvern tímann byrjað að horfa á An American Werewolf in London en gefist upp. Ekki í stuði væntanlega. Og síðan hef ég verið í minna stuði fyrir John Landis í nokkur ár.
Það liggur í augum uppi að bera saman An American Werewolf in London og The Howling sem kom út sama ár. Í heild myndi ég segja að þessi sé betri mynd. Mér þótti hins vegar marglofuð varúlfaumbreyting í þessari ekki koma vel út í samanburðinum við Howling.¹ Varúlfurinn sjálfur var líka frekar slakur. „Förðunin“ á Griffin Dunne er þó frábær.
Helsti kostur An American Werewolf in London er að hún er fyndin. Líklega hló ég mest að Frank Oz, sérstaklega þegar hann „birtist“ í seinna skiptið.
Helsti galli An American Werewolf in London er aðalleikarinn sem er frekar glataður í samanburði við t.d. Griffin Dunne og Jenny Agutter. Það eru nokkur kunnugleg bresk andlit í myndinni, m.a. ungur Rik Mayall.
Gaman að fá gamla mynd í Álfabakkann.
Maltin gefur ★★★☆
Óli gefur ★★★★☆👍👍
¹ Rick Baker átti að sjá um varúlfana í Howling en þurfti að vinna við An American Werewolf in London í staðinn. Þá tók lærlingur hans Rob Bottin að sér mynd Joe Dante og stóð sig svona afskaplega vel.
