Night of the Creeps (1986) ★★★⯪☆👍👍

Það eru krípí kríp að hrella háskólastúdenta um miðjan níunda áratuginn.

Night of the Creeps er ein af þeim hryllingsmyndum frá þessu tímabili sem ég lét alveg fara framhjá mér. Þær höfðu flestar yfirbragð lélegra mynd. Það var mælt með myndinni í Critically Acclaimed, ekki sem stórkostlegri mynd heldur gott dæmi sinnar gerðar.

Leikstjóri Night of the Creeps er Fred Dekker sem gerði næst myndina Monster Squad sem ég hef bara séð einu sinni en líkaði vel við sem grínhryllingsmynd. Handrit þeirrar myndar var skrifað af Dekker og Shane Black (sem varð mun frægari þegar á leið¹).

Það sem dregur Night of the Creeps niður er að leikaravalið er ekki frábært. Það á sérstaklega við um yngri leikarana (nema kannski sá sem leikur skíthælinn). Tom Atkins leikur gamla löggu og hann neglir hlutverkið alveg. Hann veit alveg í hvaða mynd hann er.

Þetta er svona „Ef…“ mynd því það hefði ekki þurft mikið til að Night of the Creeps væri algjörlega klassísk hryllingsmynd á borð við A Nightmare on Elm Street eða jafnvel Gremlins. Ef tæknibrellurnar væru örlítið betri. Ef einhver (t.d. Shane Black) hefði fengið að laga handritið aðeins til. Ef leikararnir væru aðeins betri.

Það er samt lítils virði að reyna að ímynda sér betri útgáfu af myndinni… nema ef einhver myndi einfaldlega endurgera hana. Í heildina er Night of the Creeps ákaflega fín og oft fyndin.

Það eru ótal skemmtilegar vísanir í eldri hryllingsmyndir í Night of the Creeps. Svo er þarna leikari í litlu hlutverki sem er eiginlega sjálfur ein allsherjar vísun hvar sem hann birtist.

Maltin hefur sleppt Night of the Creeps úr handbók sinni sem er mjög óvenjulegt.

Óli gefur ★★★⯪☆👍👍.

¹ Shane Black skrifaði t.d. Last Action Hero, The Last Boy Scout, Lethal Weapon og Predator. Hans bestu myndir eru líklega þær sem hann leikstýrði sjálfur, Kiss Kiss Bang Bang og The Nice Guys. Svo leikstýrði hann einhverri Marvel-mynd sem ég sá aldrei. Þeir Fred Dekker gerði síðan saman The Predator sem mér skilst að sé óþarfi að sjá. Nýjasta mynd Shane Black er Play Dirty sem ég hef ekki lagt í.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *