Cecil B. Demented (2000) ★★★☆☆👍

Frægri leikkonu er rænt og hún neydd til að koma fram í kvikmynd sem gagnrýnir Hollywood.

Cecil B. Demented skartar Melanie Griffith í aðalhlutverki en þarna er líka fjöldinn allur af leikurum undir þrítugu sem voru ekki sérstaklega frægar á þeim tíma en hafa afrekað margt á síðasta aldarfjórðungi, s.s. Stephen Dorff, Maggie Gyllenhaal, Alicia Witt, Michael Shannon og Adrian Grenier. Síðan er Patty Hearst¹ á svæðinu til þess að spegla reynslu persónu Melanie Griffith.

Hópurinn sem rænir Melanie Griffith samanstendur af ungu kvikmyndagerðarfólki og -unnendum. Þau hata meginstrauminn og sérstaklega Hollywood. Þau vilja eitthvað meira ekta en eru alveg laus við að átta sig á eigin tilgerð. Sumsé, Cecil B. Demented er ekki bara að gagnrýna Hollywood heldur líka að gera grín að þeim sem taka sjálfstæða kvikmyndagerð óhóflega alvarlega. Um leið er hjarðeðli almennings skotmark.

Á köflum er Cecil B. Demented ákaflega fyndin en hún er líka mjög ójöfn. Hún stendur ekki alveg undir sér en hún er nógu stutt til þess að það var ekki að ergja mig neitt óhóflega. Leikararnir gera mikið fyrir myndina. Það á bæði við um þau yngri og Melanie Griffith sem gerir töluvert grín að eigin ímynd.

Maltin gefur ★⯪☆☆ og var greinilega ekki alveg að fíla myndina.

Óli gefur ★★★☆☆👍

¹ Árið 1974 var Patty Hearst, barnabarni blaðakóngsins William Randolph Hearst², rænt af samtökum sem kölluðust Symbionese Liberation Army. Tveimur mánuðum seinna fengu fjölmiðlar segulbandsspólu þar sem hún lýsti því yfir að hún hefði gengið til liðs við mannræningja sína. Hún tók í kjölfarið þátt í aðgerðum s.s. bankaráni.

Rúmu einu og hálfu ári eftir að Patty Hearst var rænt var hún handtekin. Þrátt fyrir að ekkert benti til þess að hún hefði framið nokkra glæpi ef henni hefði ekki verið rænt var hún sótt til saka og dæmd í fangelsi. Dómurinn var síðan mildaður og að lokum var hún náðuð.

² Sjá umfjöllun um Citizen Kane.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *