The Running Man (2025) ★⯪☆☆☆👎

Fátækur en ofursvalur gaur mætir í banvænan raunveruleikasjónvarpsþátt og sýnir hve harður hann er.

Flóttamaðurinn var ein af fyrstu bókum Stephen King sem ég las. Líklega sá ég myndina með Arnold Schwarzenegger fyrst. Hún var mjög góð lexía í því hvernig bækur breytast í Hollywood.

Er sanngjarnt að meta kvikmynd út frá bókinni? Hiklaust. Það er ekki hægt að ætlast til þess að myndin sé beint eftir bókinni en þaðan komu hugmyndirnar. Þessi kvikmynd var líka kynnt á þeim forsendum að hún væri trú bókinni. Þar sem ég er nýbúinn að endurlesa The Running Man eftir Richard Bachman¹ er ég ágætlega í stakk búinn að meta það. Vissuð þið að hún gerist árið 2025?

Í aðalhlutverki The Running Man (2025) er Glen Powell. Ég var smá efins því þó hann sé ekki vöðvatröll er hann langt frá því að vera meðaljóninn² sem lýst er í bókinni. Efasemdirnar áttu rétt á sér. Í þessari mynd er Ben Richards bara rosalega svalur harðjaxl.

Sumar Hollywood-stjörnur hafa komist í þá stöðu að fá að endurskrifa hlutverk sín til þess að þau falli betur að ímynd þeirra. Ég efast um að Glen Powell sé kominn í þá stöðu. Samt hljómuðu línurnar hans í The Running Man þannig. Hann er endalaust hnyttinn. Það er þreytandi.

Söguþráðurinn í The Running Man er að mörgu leyti frekar trúr bókinni framan af. Það sem hefur breyst eru persónurnar og samspil þeirra. Sérstaklega er nútímavæðing á einni helstu hjálparhellu aðalpersónunnar sársaukafull. Honum var breytt úr raunverulegum aktívista í samsæriskenningasjónvarpsgláparaáhrifavald.

The Running Man (2025) er áberandi slökust af myndum Edgar Wright. Ég vona að þetta sé „ein fyrir þá“ og við fáum fljótlega „ein fyrir mig“ mynd til að vega upp á móti henni. Engin breyting frá bókinni er til batnaðar. Það á auðvitað sérstaklega um endinn sem er ótrúlega ósannfærandi og satt best að segja asnalegur. Algjört kjarkleysi.

The Running Man (2025) hefur verið réttilega gagnrýnd fyrir að hafa lítið að segja um samtíma okkar. Það hefur jafnvel verið stungið upp á því að myndin hefði frekar átt að fjalla um samfélagsmiðla. Það er ekkert frábær hugmynd. Það er bara allt önnur kvikmynd. Líklega hefði hún samt haft meira um samtíma okkar að segja ef hún hefði fylgt bókinni. The Long Walk öskrar að það sé hægt.

Það eru góðir leikarar í myndinni en ég var ekkert að falla fyrir frammistöðu þeirra. Colman Domingo, Katy O’Brian og Michael Cera virðast allavega hafa skemmt sér.

Óli gefur ★⯪☆☆☆👎

¹ Skondið að fá tvær myndir gerðar eftir bókum Richard Bachman sama árið. Hin er betri.

² Þegar ég var krakki fattaði ég aldrei hvað þetta ljón kæmi málinu við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *