The Dark Knight (2008) ★⯪☆☆☆👎

Hver er hetja? Hver er skúrkur? Hverjum er ekki sama?

Þar sem mér þótti Batman Begins betri en mig minnti var ég á varfærinn hátt bjartsýnn fyrir The Dark Knight. Mér þótti hún á sínum tíma betri en sú fyrsta og kannski yfirsást mér eitthvað sem myndi útskýra hvers vegna hún er í svona miklum metum hjá fólki.

Eftirminnilegasti hluti The Dark Knight er saga sem brytinn Alfreð segir. Á sínum yngri árum var hann málaliði sem starfaði fyrir spillt yfirvöld í Mjanmar (þá kölluð Búrma) sem voru að reyna að múta „ættbálkaleiðtogum“. „Bandíti“ náði að tefja þetta framtak með því að ræna gimsteinum sem átti að nota sem greiðslur.

Það sem Alfreði þótti skrýtnast var að þessi maður virtist ekki hafa neinar rökréttar ástæður eins og peningagræðgi að leiðarljósi. Í raun hafði bandítinn ekki einu sinni áhuga á gimsteinunum vegna þess að hann fleygði þeim. Enginn á svæðinu hafði áhuga á því að segja til hans þannig að málið var leyst með því að brenna skóginn.

Bíddu. Hvað? Þessi saga gæti verið snilldargreining á viðhorfi Breta til fyrrverandi nýlendna sinna. Vandamálið er að það er aldrei gefið nokkuð til kynna að Alfreð eða Bruce áttuðu sig á hve fáránleg þessi framsetning væri. Þvert á móti var látið eins og sagan væri full af innsæi um að sumt fólk hegðaði sé á órökréttan hátt. Alfreð toppaði söguna með því að segja að sumir vildu bara sjá heiminn brenna … Ehh, hver var það sem bókstaflega brenndi skóginn?¹

Jókerinn á sumsé að vera eins og bandítinn af því græðgi stjórnar ekki athöfnum þeirra. Þetta er undirstrikað þegar glaðværi maðurinn brennir bókstaflegan haug af peningum. Sögulegt samhengi The Dark Knight er áhugavert vegna þess að hún kom út á þeim tíma sem peningagráðugir menn höfðu byggt upp efnahagskerfi sem var á mörkum þess að hrynja.

Þegar ég skrifaði um Batman Begins nefndi ég að ef Bruce Wayne vildi bæta Gotham ætti hann stuðla að kerfisbreytingum. Í The Dark Knight er hann með ákveðnar þreifingar í þá átt með því að styðja saksóknarann Harvey Dent en það byggir allt á mjög einfeldningslegum hugmyndum um vandann sem borgin stendur frammi fyrir. Borgin þarf ekki hetju, borgin þarf umbætur á öllum sviðum.

Það er undarlegt pyntingaratriði í The Dark Knight sem sýnir hve siðferðislega gjaldþrota Batman og löggurnar eru. Myndinni til … hróss … virka pyntingarnar nákvæmlega ekkert og koma meira að segja í bakið á þeim. Þessi mynd endurspeglar Bandaríkin á tímum George W. Bush.

Oft hefur Batman notað geðsjúkdóma til þess að útskýra illmenni sín. Það virðist líka eiga við um Jókerinn og flesta skósveina hans. Það er eiginlega bara vandræðalegt að horfa á þetta með gagnrýnum augum. Mig langar frekar að minnast Heath Ledger fyrir Shakespeare myndina sína.²

The Dark Knight þjáist af oflengd. Ég sem áhorfandi þjáðist af oflengd hennar. Eftir á velti ég upp þeirri spurningu hvort við hefðum séð einhverja leikstjóraútáfu (nei) en Gunnsteinn benti á að Christopher Nolan væri hrifinn af lengd. „En ekki dýpt“ svaraði ég.

Það eru líklega færri konur í The Dark Knight en Batman Begins. Katie Holmes er skipt út og þó Maggie Gyllenhaal sé betri leikkona er persóna hennar samt algjörlega skilgreind út frá sambandi hennar við tvo karlmenn. Síðan uppfyllir hún eitt týpískasta hlutvera kvenna svona myndum

Christian Bale, Michael Caine, Gary Oldman, Cillian Murphy (í mýflugumynd) og nokkrir í viðbót snúa aftur. Aaron Eckhart leikur saksóknara, Eric Roberts er mafíósi, Anthony Michael Hall („used to be a nerd, now he’s a meathead“) er lögga.

Tónlistin er óeftirminnileg. Ef markmiðið var að skyggja ekki á myndina þá tókst það. Tónskáldin hafa oft gert betur.

Endirinn er það næst undar- og asnalegasta við The Dark Knight. Batman lætur eins og hann sé tilneyddur til að þykjast vera vondi kallinn. Af hverju? Planið hans er fullkomlega órökrétt og mjög ólíklegt að það gangi upp. Það var fullt af fólki sem gæti afhjúpað sannleikann og ótal aðrir möguleikar til að ná fram markmiðinu.

Á leiðinni út heyrði ég brot úr samtali sem hljómaði eitthvað á þessi leið „sko, hún er alveg góð en …“. Líklega mun The Dark Knight falla neðar á topplistum þegar á líður. Á ég að nenna að sjá hann rísa?

Maltin gefur ★★☆☆.

Óli gefur ★⯪☆☆☆👎.

¹ Þetta er sagan af Hróa hetti sem er að berjast við spillt yfirvöld. Alfreð heldur því fram að bandítinn hafi fleygt gimsteinunum. Það bendir ekkert til þess að það sé rétt. Hann hefur engar sannanir heldur segist hafa séð barn leika sér að gimsteini og dregur þessa ályktun. Það virðist vera ótrúlegur skortur í ímyndunarafli.  Eða sögðu innfæddir honum þessa sögu? Er ekki líklegra að þessi Hrói höttur hafi bara gefið fátækum þessa steina?

Alfreð virðist vera týpískur Breti sem getur engan veginn skilið nýlenduþegna heimsveldisins. Það að hann hafi verið að vinna í fyrrverandi nýlendu segir ekkert gott um persónu hans. Hvað þá sú undarlega skoðun hans að peningagræðgi sé rökrétt. Það að The Dark Knight láti eins og Alfreð sé vitur öldungur sýnir í raun hve gjaldþrota myndin er.

² 10 Things I Hate About You. Ekki brandari. Góð mynd.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *