Álag á hjónaband rithöfundar eykst þegar hann byrjar að endurskrifa handrit fyrir Hollywood-framleiðanda.
Le mépris er oft hátt á listum yfir bestu myndir allra tíma. Hún er líka kvikmynd um að búa til kvikmyndir. Jean-Luc Godard hæðist að framleiðanda myndarinnar með froðukenndri persónu Jack Palance. Sá neyddi líka Godard til þess að setja inn nektaratriði með Brigitte Bardot sem gerði myndina líklega ákaflega eftirminnilega.¹
Í löngu atriði sjáum við og heyrum hjón rífast. Það er mjög erfitt að fá botn í það sem þau segja. Satt best að segja er þetta eins og að fá sögu af rifrildi frá sjónarhóli karlmannsins þar sem ekkert vit er í því sem konan á að hafa sagt eða gert.
Le mépris hefur verið greind fram og til baka og ég er ekki alveg sammála öllu. Hérna er höskuldur sem er bara ágiskun mín. Ég held að Hollywood-framleiðandinn gefi skýrt til kynna að hann vilji sofa hjá eiginkonunni gegn því að ráða handritshöfundinn í vinnu og hafi jafnvel túlkað svör hans á þá leið að hann væri samþykkur því. Þegar framleiðandinn var einn með eiginkonunni hefur hann þá útskýrt þennan „samning“. Allavega verður hegðun konunnar algjörlega skiljanleg ef þetta gerðist.
Kvikmyndagerðin í Le mépris er mjög undarleg á köflum. Ég var ekki einu sinni sannfærður um að það ætti að vera svona en Godard var að gera þetta viljandi. Ég var ekki að falla fyrir þessu hjá honum.
Fyrir mér er hápunkturinn að Fritz Lang leikur Fritz Lang. Hann fær að segja að M sé í sérstöku uppáhaldi hjá honum.² Godard sjálfur leikur aðstoðarmann hans.
Kannski á endir myndarinnar að vera einfeldningslegur. Ég veit ekki. Allavega gerði hann lítið fyrir mig.
Maltin gefur ★★★⯪.
Óli gefur ★★★⯪☆👍.
¹ Á þessum tíma sem evrópskar kvikmyndir voru hve vinsælastar í Bandaríkjunum voru nektaratriði mikilvægur þáttur í sölu bíómiða. Bandarískar kvikmyndir þurftu ennþá að fylgja ritskoðunarreglum sem takmörkuðu mjög hve æsandi þær máttu vera.
² Það er langt síðan ég hef séð M. Ég hef vonast til þess að hún yrði aftur sýnd sem klassísk mynd í Bíó Paradís. Ef ég ætti að gera lista yfir bestu kvikmyndir allra tíma myndi ég setja M mjög ofarlega, ef ekki efst.
