Frjálshyggjan hefur náð að rústa Bandaríkjunum. Hvenær urðu kvikmyndir svona pólitískar?
Ég sá ekki RoboCop fyrren fyrir nokkrum árum. Það var sífellt talað um allt ofbeldið í henni og ég hélt að það væri ekki mikið meira varið í hana. Líklega sannfærði höfundur Árabátarlöggunnar mig um að gefa henni séns.
Paul Verhoven hefur yfirbragð og orðspor manns sem gerir lélegar myndir. Ég féll ekki sérstaklega fyrir Basic Instinct á sínum tíma (mögulega var VHS-upplausnin ekki nógu góð til að grípa mig). Hins vegar sá ég Showgirls í bíó og þótti hún ekki jafn slæm og fólk hafði haldið fram. Hollow Man náði mér alls ekki.
Eftir að hafa loksins séð RoboCop ákvað ég að kíkja á eldri myndir Verhoven. Fyrir valinu varð Soldaat van Oranje (1977) með Rutger Hauer (tár í rigningunni) og Jeroen Krabbé (Provasic!). Hún fjallar um stúdenta sem taka þátt í andspyrnunni gegn hernámi Þjóðverja í Seinni heimsstyrjöldinni. Alveg frábær mynd.
Svo kom Total Recall í bíó. Þó ég hafi verið hrifinn af henni á sínum tíma gerði ég ráð fyrir að hún hefði elst jafn illa og margar slíkar hasarmyndir. Það var kolrangt. Það er ekki nóg með að hún sé ákaflega fyndin heldur er hún greinilega gegn kapítalískum fasisma.
Nú þegar RoboCop kom í bíó fannst mér rétt að fá unglinginn með. Það er alveg rétt að þetta er ofbeldisfull mynd. Það þjónar samt allt boðskapnum. Við erum mjög greinilega stödd í Ameríku sem líður fyrir arfleifð Ronald Reagan.¹
Frjálshyggjan er svo stjórnlaus að lögreglan í Detroit hefur verið einkavædd. Nýju eigendurnir eru hergagnaframleiðendur sem vilja spara og græða. Þeir vilja losna við mannlega þáttinn. Þeir vilja véllöggu.²
Peter Weller (sem vill að þú farir til Feneyja um jólin) leikur RoboCop og Nancy Allen er félagi hans. Ronny Cox, Miguel Ferrer (Twin Peaks) og Dan O’Herlihy leika glæpamennina innan fyrirtækjaheimsins. Kurtwood Smith (That ’70s Show) og Ray Wise (Twin Peaks) eru meðal götuglæpona. Var David Lynch aðdáandi þessarar myndar?
RoboCop er ákaflega góð mynd en alls ekki gallalaus. Hún missir dampinn þegar á líður og þó lokauppgjörið sé skemmtilegt þá er bláendirinn sjálfur ekki frábær.
Maltin gefur ★★★☆ sem kemur örlítið á óvart því hann er almennt frekar neikvæður fyrir ofbeldismyndum.
Óli gefur ★★★★⯪👍👍🖖.
¹ Líklega var Ronald Reagan drepinn í myndinni með eigin ofurvopnum. Það er samt óljóst því myndin gerist viljandi á ótilgreindum tíma.
² Fyrst ED-209 sem er ekki titilvélin heldur drápstól sem getur starfað án mannlegrar skynsemi. Þegar við kynnumst honum fáum við sterk skilaboð sem gilda um samtíma okkar: Ekki treysta gervigreind fyrir neinu mikilvægu.
