Í dystópískri framtíð hefur dómstóll götunnar tekið yfir.
Ég hef enga tengingu við Judge Dredd. Mögulega hef ég kíkt á einhverjar teiknimyndasögur en varla lesið. Ég sá þessa ekki á sínum tíma og sleppti líka endurgerðinni.
Samkvæmt því sem ég hef lesið voru miklar deilur milli Sylvester Stallone og leikstjórans Danny Cannon um tón Judge Dredd. Annar vildi alvarlega hasarmynd og hinn vildi fyndna hasarmynd. Galli myndarinnar er að hún nær engu jafnvægi. Helsti kostur myndarinnar er að hún er ógeðslega fyndin.
Sylvester Stallone veit¹ alveg í hvaða mynd hann vill vera. Hann er á yfirkeyrslu. Um leið og hann byrjaði að tala hló ég. Armand Assante nær næstum að jafna þetta orkustig en aðrar leikarar ná ekki flugi. Sem er líklega gott í tilfelli Rob Schneider sem hefur sjaldan verið jafn þolanlegur.
Ég veit ekki hvort Judge Dredd hefði verið betri ef hún hefði verið alvarleg en ef hún hefði leyft sér að keyra á fáránleikanum væri hennar minnst með meiri hlýju.
Maltin gefur ★★☆☆.
Óli gefur ★★★☆☆👍 en það væri líklega hægt að sannfæra hann um að hækka um svona hálfa stjörnu en aldrei um að hætta að tala um sjálfan sig í þriðju persónu.
¹ Sylvester Stallone er endalaust áhugaverður karakter og þó mér hafi þótt Sly gölluð sem heimildarmynd þá gefur hún ákveðna innsýn í manninn.
