The NeverEnding Story (1984) ★★★☆☆👍

Síbrotadrengur lærir um töfra lesturs. Í kvikmynd.

Ég á ekki bíómiða en ég man sterkt eftir að hafa séð Söguna endalausu í bíó. Ég fletti því upp og hún var sýnd örfáa daga í Borgarbíó rétt fyrir jól árið 1985.

Fjörtíu árum seinna fór ég aftur á hana með fjölskyldunni. Alveg var ég búinn að gleyma því að sagan hverfist um dreng sem er nýlega búinn að missa móður sína. Þetta sá ég væntanlega rétt rúmu ári eftir að ég lenti í því sama. Ég mundi bara eftir grjótætunni og flughundinum (út af atriðinu í blálokin).

Die unendliche Geschichte er ekki frábær mynd en hún er ekki sjarmalaus. Hún fer bara of oft yfir mörkin og verður hallærisleg.

Grjótætan er ennþá flott en flughundurinn er dapurlegri. Ef þetta allt er borið saman við það sem Jim Henson var að gera á sama tíma sjáum við hver var meistarinn.

Það virðist vera að The NeverEnding Story hafi verið talsett eftir á að evrópskum sið þó aðalleikararnir hafi talað ensku. Allavega mörg atriði. Leikarar virðast alltaf vera lélegri þegar ekki er um beina upptöku (eða rosalega vandaða talsetningu). Líklega er hægt að kalla þetta fyrstu mynd Wolfgang Petersen á ensku. Skondið að hugsa til þess að næsta mynd hans á undan hafi verið Das Boot.

Tónlistin í The NeverEnding Story á góða spretti en aðallega þegar spiluð eru stef úr titillaginu (Limahl og Giorgio Moroder). En það er samt eins og það sé verið stríða áhorfendum því lagið sjálft kemur aldrei. Bömmer.

Maltin er frekar jákvæður og gefur ★★★☆.

Óli er minna jákvæður og gefur ★★★☆☆👍.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *