The Muppet Christmas Carol (1992)👍👍🖖

Ef þið horfið á The Muppet Christmas Carol á DisneyPlús þá verðið þið að passa ykkur á að velja lengri útgáfuna sem er sett í „aukaefni“.

Þegar Jim Henson lést langt fyrir aldur fram¹ var allt óvíst um framtíð Prúðuleikaranna. Hann virtist vera ómissandi þáttur í snilld þeirra. Mig grunar þó að ef fólk sé spurt um uppáhalds Prúðuleikaramynd sína sé The Muppet Christmas Carol oftast svarið.

Þrátt fyrir andlát Jim var ákveðið að halda áfram. Sonur hans Brian tók við stjórninni og fékk þá ágætu tillögu frá umboðsmanni sínum að búa til útgáfu af Jólasögu Dickens. Upprunalega átti að gera þetta að vera jólasjónvarpsmynd en þegar Disney blandaðist í málið varð hugmyndin að bíómynd.

Brian Henson reyndi að koma sér undan því að leikstýra The Muppet Christmas Carol en aðrir höfnuðu tilboðum. Þó er líklegt að Frank Oz (Svínka, Fossi osfrv.) hafi verið tilbúinn á hliðarlínunni með ráðleggingar.²

Það hvernig Prúðuleikararnir myndu aðlaga Dickens var óljóst. Fyrst átti þetta að vera algjör grínútgáfa af sögunni. Hugmyndin þróaðist og úr varð handrit, skrifað af Jerry Juhl, sem fylgir að mestu leyti bókinni. Ef þið lesið Jólasöguna getið þið séð hve mikið af textanum er notaður orðréttur. Bara með Prúðuleikurum.

Líklega er mikilvægasti hluti The Muppet Christmas Carol leikaravalið. Michael Caine ákvað að nálgast hlutverk Skröggs eins og hann væri að leika á móti mannfólki í fullkomlega alvarlegri útgáfu af sögunni.

Auðvitað eru samt endalausir brandarar í The Muppet Christmas Carol. Þegar kom að því að velja í hlutverk sögumannsins Charles Dickens var spurningin einfaldlega „Hvað Prúðuleikari er ólíklegastur í hlutverið?“. Auðvitað var það Gunnsi³. Honum til halds og trausts er rottan Rizzo.⁴ Sem tvíeyki eru þeir ómótstæðilegir.

Rizzo: Boy, that’s scary stuff! Should we be worried about the kids in the audience?
Gonzo: Nah, it’s all right. This is culture!

Af öðrum „leikurum“ má helst að nefna Kermit sem Bob Cratchit og Svínku sem eiginkona hans. Stærsta breytingin frá Jólasögu Dickens er að Marley verður að bræðrum, leiknir af Statler og Waldorf.⁵ Svo eru fjölmargir aðrir Prúðuleikarar í minni hlutverkum.

Brian Henson ákvað að fá líka aðstoð frá manni sem ber einna mesta ábyrgð á arfleifð Prúðuleikaranna án þess að hafa nokkru sinni verið innanbúðarmaður. Það er Paul Williams sem m.a. samdi The Rainbow Connection.

Eitt af þeim lögum sem Paul Williams samdi fyrir The Muppet Christmas Carol er When Love Is Gone. Það lag er tilfinningalegur kjarni myndarinnar en var klippt út vegna þess að Jeffrey Katzenberg (forstjóri Disney) taldi að börn hefðu ekki þolinmæði til að hlusta á það.⁶ Þið ættuð að fara að fyrirmælum mínum og sjá útgáfuna með laginu.

Við fjölskyldan horfum á The Muppet Christmas Carol á hverri einustu Þorláksmessu fyrir utan í fyrra þegar við fórum á hana aðeins fyrr í bíó. Ég taldi því óhætt að skrifa um myndina aðeins fyrr. Hún væri líklega eftirlætis jólamyndin ef ekki væri fyrir þá sem ég mun horfa á á morgun.

Maltin gefur ★★★☆ og er greinilega að máta sig við hlutverk Skröggs.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖

¹ Því er oft ranglega haldið fram að Jim Henson hafi dáið vegna þess að trú hans hafi bannað honum að leita læknishjálpar vegna sýkingar sem hefði átt að vera auðhöndlandleg. Það er greinilega ósatt því þó hann hafi verið alinn upp við „Kristin vísindi“ sem hafnar læknavísindum hafði hann löngu sagt skilið við þær trúarkenningar. Það er kannski auðveldast að segja að trú hans hafi verið í anda hippakynslóðarinnar. Hann var „andlegur“. Aftur á móti er ekki ósennilegt að uppeldi hans hafi orðið til þess að hann leitaði ekki nógu fljótt til lækna.

² Frank Oz er auðvitað leikstjóri sjálfur og gerði meðal annars Little Shop of Horrors þar sem Brian Henson tók þátt í að stjórna plöntunni geðþekku.

³ Svo við notum íslenska nafnið á Gonzo. Á ensku virðist nafnið vísa beint til Hunter S. Thompson og „gonzo-blaðamennsku“ hans.

⁴ Rizzo fær nafn sitt frá persónu Dustin Hoffman Ratso Rizzo í Midnight Cowboy.

⁵ Báðir nefndir eftir hótelum í New York.

⁶ Þegar ekki var hægt að fá myndina í heild klippti ég saman útgáfu af The Muppet Christmas Carol til þess að hafa lagið með þegar við horfðum á hana saman á Þorláksmessu. Það var auðvitað augljós klipping, ekki bara út af gæðamuninum heldur var When Love Is Gone í 4:3 DVD-hlutföllum en restin í 16:9.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *