Clerks (1994) ★★★★★👍👍🖖

Maður á ekki einu sinni að vera í vinnunni í dag og sleppur naumlega við að vera skotinn til bana.

Clerks er fyrsta mynd Kevin Smith. Sagan af gerð hennar er eiginlega jafnfræg henni sjálfri. Hún var fjármögnuð með sölu á teiknimyndasögusafni leikstjórans og ýmsum greiðslukortum.¹ Hún er svarthvít útaf djúpum listrænum ákvörðunum um að slíkar filmur væru miklu ódýrari.

Skrifaðu það sem þú þekkir er mantra. Kevin Smith gerði það. Söguhetjan okkar vinnur í kjörbúð sem er sambyggð myndbandaleigu þar sem vinur hans vinnur (þegar hann nennir). Þeir tala saman um líf, dauða, sambönd og heimspeki, oft með vísunum í poppkúltúr.² Þessar samræður hafa oft verið kallaðar raunsannar en þó þær fjalli vissulega um það sama og gaurar af þessari (cirka minni) kynslóð voru að tala um þá er allt stílfært.

Af öllum umræðuefni sem ber á góma í Clerks eru pælingarnar um Dauðastjörnuna það áhugaverðasta. Spurningin hvort fólk þurfi að velta fyrir sér fyrir hverja það vinnur er sígræn. Auðvitað hefur þakviðgerðarmaðurinn rétt fyrir sér. Ef þú vinnur fyrir skíthæla getur það komið harkalega í bakið á þér. Auðvitað vann Kevin Smith fyrir einn versta skíthæl í Hollywood í mörg ár. Þó hafði hann vissulega þegar slitið á tengslin þegar almenningur varð fyrst meðvitaður um hve slæmur Weinstein raunverulega var.

Clerks er síns tíma. Sem getur verið gott og slæmt. Hættan er auðvitað fyrst og fremst sú að fólk sem ekki man þessa tíma geti ekki skilið hana án þess samhengis. Ég held að hún sé tímahylki sem gefi innsýn. Sumsé að hún geti staðið ein. En ég get auðvitað ekki verið viss og það er vel mögulegt að mitt eigið sjónarhorni blindi mig.

Útgáfan af Clerks sem var sýnd í Bíó Paradís er með aukaatriði sem Kevin Smith náði ekki að taka upp á sínum tíma. Tíu árum seinna var það búið til sem stutt teiknimynd sem hefur verið skeytt inn. Lukkulega er upprunalegi endirinn ekki með þannig að Dante slapp frá byssumanninum.

Heimurinn sem Clerks skapaði heldur áfram. Mallrats fylgdi, Chasing Amy, Dogma … og síðan margar misgóðar en yfirleitt fyndnar. Ég hef ekki enn horft á Clerks 3. En ef þið viljið eitthvað öðruvísi frá Kevin Smith mæli ég alveg með The 4:30 Movie.

Maltin gefur ★★★☆.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 eftir um mánaðar íhugun því það er erfitt að vita hve mikið þetta snýst um persónuleg tengsl við myndina. Það eina sem mætti breyta við Clerks er titilspjaldið fyrir View Askew.

¹ Það er rétt að minnast á að Smith var undir miklum áhrifum frá Richard Linklater sem gerði Slacker (1991).

² Slíkar vísanir voru ekki jafn algengar árið 1994 og þær hafa verið síðustu þrjátíu ár undir áhrifum frá Kevin Smith og Quentin Tarantino.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *