Die My Love (2025) ★★★★⯪👍👍

Kona þarf að kljást við fæðingarþunglyndi, einangrun og erfiðan eiginmann.

Einhvers staðar sá ég þá gagnrýni að Die, My Love væri skrýtin til þess að vera skrýtin. Mér þykir það ekki sanngjarnt. Ég held að það sé skýr tilgangur með þessu öllu. Um leið er ég nokkuð viss um að myndin er ekki fyrir alla.

Þó við horfum á persónu Jennifer Lawrence utan frá sýnir Die, My Love okkur lífið frá hennar sjónarhorni. Það er ekki alltaf þægileg reynsla. Til dæmis er það tónlistin. Hún er góð en stundum er hávaðinn truflandi. Það er samt auðvitað til að endurspegla hugarástand.

Die, My Love er á köflum fyndin, almennt á dapurlegan hátt. Sérstaklega samskipti Lawrence við fólk sem er örugglega velmeinandi en samt óþolandi glórulaust.

Ég þekkti ekki Nick Nolte undir þessu skeggi en hann er góður þó hlutverið sé ekki stórt. Sissy Spacek fær aðeins meira að gera sem tengdamóðir Lawrence og nýtir það.

Líklega er ágætt að Robert Pattison sé bara á svæðinu, skilningssljór og ánalegur. Hann gerir allavega enga tilraun til að draga athyglina frá Jennifer Lawrence sem á Die, My Love.

Lynne Ramsay er leikstjóri og annar handritshöfunda Die, My Love. Því miður hef ég ekki séð meira frá henni.

Í lok myndarinnar fannst mér ég hafa upplifað eitthvað öðruvísi sem er ekki eitthvað sem allar kvikmyndir bjóða upp á.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *