Hýsillinn / The Host (2006) ★★★★☆👍👍

Suður-kóresk skrýmslamynd byggð á sannri sögu.

Eitt skrýmsli Hýsilsins var í raun til og starfaði í líkhúsi bandarískrar herstöðvar. Albert L. McFarland skipaði undirmanni sínum að hella eitri í niðurfall þannig að því skolaði út í Han-fljótinu.

Eftir mikil mótmæli í Suður-Kóreu var réttað yfir honum og hann dæmdur í hálfsárs fangelsi … en slapp auðvitað vegna þess að þarf mikið til að bandaríski herinn leyfi einhverjum að refsa sínu fólk. Seinna var McFarland heiðraður af samtökum fólks í bandaríska útfarariðnaðinum.

Bong Joon-ho leikstýrir Hýslinum. Hann er þekktastur fyrir að Snýkjudýrið.¹ Það er samt eiginlega vandræðalegt að ég hafi ekki séð þá síðarnefndu. Ég var mjög hrifinn af Minningum um morð og fannst Mickey 17 fín.

Það er annað skrýmsli í Hýslinum. Það býr í fljótinu og ræðst á fólk. Gunnsteinn getur vottað að mér brá ítrekað þegar það kom aftan að mér. Skrýmslið er ágætlega heppnað en þó háð flestum þeim takmörkunum tölvugrafíkur síns tíma.

Inn í þetta flækist undarleg fjölskylda. Maður (Song Kang-ho) sem vinnur með hléum í sölubás föður síns (Byun Hee-bong) ásamt því að reyna að sinna dóttur sinni (Ko A-sung), systir hans (Bae Doona) sem er afreksskona og bróðir hans (Park Hae-il) sem var virkar í lýðræðishreyfingunni. Ættfaðirinn reynir að halda þessari fjölskyldu saman en það gengur ekki frábærlega.

Þau fjögur eldri léku öll í Minningum um morð.

Hýsillinn er ádeila, sérstaklega, en ekki eingöngu, á bandaríska herinn. Sumt eldist illa í ljósi þeirra samsæriskenninga sem við höfum þurft að glíma við í kjölfar covid.

Vel heppnuð skrýmslamynd.

Maltin gefur ★★★☆.

Óli gefur ★★★★☆👍👍.

¹ Eitthvað þema í gangi?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *