Titillinn er höskuldur, dauðadæmdur maður sleppur úr fangelsi.
Un condamné à mort s’est échappé er fyrsta kvikmyndin sem ég hef séð eftir Robert Bresson. Mögulega ber Richard Linklater ábyrgð á því að ég lét vaða af því Bresson kemur fram sem persóna í Nouvelle Vague.
Un condamné à mort s’est échappé byggir á sannsögulegri bók eftir franskan meðlim andspyrnuhreyfingarinnar gegn hernámi nasista. Hann sat í alræmdu fangelsi og var að lokum dæmdur til dauða. Myndin er mínímalísk. Leikarnir eru ekki atvinnumenn en skila sínu með prýði.
Það eru auðvitað töluverð mannleg samskipti en aðallega sjáum við hvernig flóttinn var undirbúinn og framkvæmdur. Við sjáum hvernig minnstu smáatriði virðast óyfirstíganleg. Kannski mætti einfaldlega kalla myndina „Verkvit“ því flóttinn snýst umfram allt um það hvernig er hægt að leysa verkefni án þess að hafa réttu tólin.
Un condamné à mort s’est échappé hefði auðveldlega getað orðið hálfgerð stílæfing. Sem betur er framkvæmdin meistaraleg og sagan grípandi. Við vitum hvar við endum en getum notið útsýnisins.
Maltin gefur ★★★⯪.
Óli gefur ★★★★⯪👍👍🖖.
