Skrifað: 10. (11.) maí 00:00 að dönskum tíma en 22:00 að íslenskum tíma.
Við lögðum af stað á flugvöllinn mjög tímanlega og vorum komin mjög tímanlega. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom á flugvöllinn var að keyra næstum á húsið hjá náungunum sem eru núna að passa bílinn minn, þeir tóku því ekkert illa. Næst villtumst við inn um vitlausan inngang á flugstöðinni en það kom ekki að sök. Ég er ákaflega klaufalegur ferðalangur enda óvanur, ég spurði heimskulegra spurninga og fór kjánalegar leiðir.
Eftir að hafa komist í gegnum tollinn skoðuðum við DutyFree sem var óheillandi, við fórum þá á kaffistofuna þarna á Leifsstöð. Ég á ákaflega bágt með að skilja hvers vegna kaffistofan þarna er einsog annarsflokks sveitasjoppa upp á úrvalið. Ég fékk mér upphitaða pizzu sem var reyndar ágæt. Á kaffistofunni ætlaði ég að fara að hlusta á Mark Steel eða Woody Allen í mp3-spilaranum mínum en þá kom í ljós að spilarinn hafði brætt batteríin. Ég prufaði að setja ný batterí í en spilarinn brást við með því að hraðspila Mark Steel fyrirlestra um lausnir á hinum og þessum málum. mínus fyrir Bónus fyrir að hafa selt mér þennan spilara.
Annar galli á Leifsstöð er salernisaðstaðan, ef karlmaður er vel vaxinn niður þá baðar hann vininn í klósettvatni ef hann væri nógu heimskur að setjast niður.
Til að halda áfram þemanu fórum við snemma að hliðinu okkar en þá kom í ljós að fluginu hafði seinkað þannig að við þurftum að bíða heillengi. Að lokum kom tilkynning á skjáinn um að við skyldum fara að hliðinu en það var bara plat svo við þurftum að bíða þarna standandi á meðan afgreiðslustúlkurnar útlistuðu hálfgelgjuleg vandamál sín.
Í flugvélinni sátum við fremst enda vorum við eiginlega fyrst. Það var undarlega raðað í sætin, einhver maður var settur við hliðina á okkur þó nóg væri af lausum sætum (jafnvel þremur saman), náunginn stakk af eftir flugtak og bað mig að taka það ekki persónulega. Mér er meinilla við að fljúga þannig að það var mér gleðiefni að ég gat stungið Mark Steel í fartölvuna og hlustað á lausnir á þeim vandamálum sem fylgja trúarbrögðum, menntun, lífinu og fjölmiðlum.
Á leiðinni benti flugstjórinn okkur á hitt og þetta landslag sem vakti ekki mikla lukku hjá mér vegna þess að ég vissi ekki hvað ég var að horfa á, þetta var eiginlega einsog að fá bút af landakorti án nokkura örnefna. Lendingin var allt í lagi, ég var þó með hellur og leiðindi.
Ég var fljótur að muna eftir því hvað það er sem ég þoli ekki við Dani, helvítis reykingar útum allt, allir virðast reykja og þeir virðast gera það við hvert tækifæri. Lestin sem flutti okkur á Hovedbånegarden kom eftir að við höfðum fengið að bíða í svona hálftíma með reykjandi Dönum, lestin var full en þó framför þar sem engar reykingar voru þar.
Við náðum að finna Löven nokkuð fljótt, það er þægilega staðsett með 7-eleven rétt hjá. Það gekk hins vegar illa að komast inn á Ljónið, hurðin vildi ekki opnast þó að kallinn stuðaði okkur upp, að lokum þurfti hann að koma og hjálpa okkur inn. Það gekk illa hjá mér að skilja náungann enda var ég orðinn svoltið steiktur á þessum punkti, gleymum ekki að ég byrjaði daginn á því að fara í próf.
Eftir að hafa hent frá okkur draslinu þá fórum við út að borða, völdum einhvern allyoucaneat pizzustað við Hovedbånegarden sem var í raun bara mjög fínn. Ég átti reyndar ákaflega bágt með að tjá mig við afgreiðslumanninn enda steiktari en DeepPanPizzan.
Þegar við komum heim fögnuðum við þeirri ákvörðun að panta herbergi með sér klósetti og sturtu, það var ákaflega notalegur endir á deginum.