Aumur

15:47 að íslenskum tíma og 17:47 að dönskum tíma þann 14. maí.

Jæja, við byrjuðum daginn á því að vakna við borun í næsta herbergi, Eygló var reyndar vöknuð fyrr. Við vorum snögg að koma okkur niður og ákváðum að prufa bakaríið sem er við hliðina á hótelinu okkar, það var ekkert sérstakt.

Á Ráðhústorgi var verið að undirbúa móttöku fyrir Mary og Frederick, þar var fullt af krökkum með pappakórónur, við Eygló nenntum ekki að bíða eftir parinu. Danir eru reyndar alveg að verða vitlausir yfir þessu brúðkaupi, fánar útum allt, hjörtu útum alls, á einum stað voru danski og ástralski fáninn saman. Þetta kostar víst danska skattgreiðendur um 150 milljónir sem mér finnst nú óþarflega mikið fyrir eitthvað kóngapakk.

Annnars þá var fyrsti planaði áfangastaður dagsins var Konunglega bókasafnið, það er gamalt og fallegt hús með nýtt svart drasl aftan við. Við röltum þar um og skoðuðum aðstöðuna.

Við röltum síðan í átt að Kristjaníu. Á einum punkti hélt Eygló því fram að við værum komin í Kristjaníu, ég hélt ekki en þá hallaði náungi upp að mér og spurði í lágum róm „hash?“, þá sannfærðist ég.

Kristjanía var áhugaverð, ég íhugaði að kaupa mér skyrtu þar en hætti við sökum þess að ég myndi aldrei nota hana. Eygló keypti sér hins vegar einhver föt. Við röltum heilllengi um, skoðuðum byggingarnar og svona. Ég tók myndir af byggingum en á sumum stöðum lét ég myndatökur alveg vera af því mig grunaði að fólkið vildi ekki enda á mynd.

Eftir Kristjaníu vildi Eygló endilega fara upp turninn á Frelsarakirkjunni og ég ákvað að vera með þó ég hefði mínar efasemdir. Leiðin upp var ekki þægilega og mér var alveg meinilla við þessa þröngu og hrörlegu stiga. Þegar við komust loksins út þá var ég ekki hress og ákvað að fara ekki upp spíruna, Eygló fór hins vegar aðeins upp á meðan ég fór niður. Reyndar fór Eygló ekki langt upp og kom nokkuð snöggt niður.

Eftir þetta leið mér ekki vel, raunar var ég orðinn afar aumur í löppunum. Við gerðum ekki mikið eftir þetta, Eygló skoðaði Magasin du Nord og var ekki heilluð.