Skrifað klukkan 00:05 að íslenskum tíma og 02:05 að dönskum tíma þann 16. maí 2004.
Við þurftum að koma okkur útúr hótelinu fyrir klukkan 10:00 og það tókst, við fórum síðan með farangurinn í geymslu á Hovedbåne. Eftir þetta röltum við Istegade og skoðuðum búðir þar. Það var eitthvað ákaflega fallegt við að sjá Kynlífsvörubúðirnar óska Mary og Friðriki til hamingju með mynd í glugga, kannski að myndbandið af brúðkaupsnóttinni endi í einhverri búðinni. Eygló vildi ekki gefa Svenna og Hrönn kynlífsleikfang fyrir þeirra hjálp. Á Istegade fundum við loksins búð sem selur plötur og geisladiska, ég keypti tvær Queenplötur og það kostaði mig bara 75 dkr. Ég fékk A Night at the Opera með ákaflega fallegu umslagi og fína Queen II með.
Við komum við á fínni pizzabúllu, mjög fín og ódýr, síðan villtumst við að eins á leiðinni á Vesterbrogade, Eygló vildi endilega komast nær Carlsberg en við enduðum bara á girðingu. Að lokum komumst við á götuna og ákváðum að koma við á netkaffihúsinu okkar til að hvíla okkur aðeins. Netkaffihúsið verðskuldar smá umfjöllun, það er töluvert frá hótelinu okkar, það var í raun afskaplega erfitt að finna netkaffihús þarna í Köben, þau eru ekki á hverju strái. Þetta kaffihús er með nafnspjald sem staðhæfir að þetta sé huggulegasta (hyggeligste) netkaffihús og tölvubúð bæjarins, það tel ég vera lygi þó ég hafi ekki skoðað neitt annað netkaffihús í bænum, það væri líka bara afskaplega sorglegt ef þetta væri satt. Það er að sjálfssögðu reykt þarna inni og loftið er afskaplega vont (ekki bara vegna reyksins). Þetta var sæmilega ódýrt, 15 dkr fyrir hálftíma.
Við héldum áfram í átt að Strikinu og á leiðinni keypti ég bol og Eygló einhver föt, Eygló keypti síðan líka buxur í Taxa. Eygló fannst ákaflega gáfulegt að reyna að skoða Vorfrúarkirkju sem var notuð í giftingu á föstudag, nokkur þúsund manns í viðbót höfðu greinilega fengið þessa sömu góðu hugmynd og röðin var sú lengsta sem ég hef séð. Við tókum bara nokkrar myndir og héldum áfram, nú var komið að leit að klósetti. Klósettið í Þrenningarkirkju var læst, ef þið þekkið ekki þessa kirkju þá ættuð þið að kannast við turninn við hana sem er sívalur.
Við rúntuðum þarna um og ákváðum að lokum að fara í Illums verslunarmiðstöðina, þar var klósett á hverri hæð og við fundum loksins eitt slíkt eftir að hafa leitað á þremur hæðum. Það voru fjölmargar konur í biðröð við kvennasalernið þannig að Eygló æddi inn á karlaklósettið og lét vaða þar, ég tók mér stöðu fyrir framan þvagskálarnar svo að Eygló sæi ekki búnaðinn á þeim sem voru að tappa af. Við fengum okkur síðan aðeins að snæða á bakaríi staðarins og það var bara fínt.
Svo ég byrji ekki fimmtu málsgreinina í röð á orðinu við þá sett ég þetta fyrst í málsgreinina. Við fórum þá næst út á Strikið og þar rákumst við á *The Beerband* sem spilaði Heim í Heiðardalinn eftir að einhver kallaði til þeirra að spila eitthvað íslenskt, eitthvað gamalt og gott. Það var ótrúlega mikið af Íslendingum í kringum hljómsveitina.
Loksins vorum við að fara á brautarstöðina og það gekk bara ágætlega, náðum að töskunum úr skápnum og fundum rétt lestarspor þá villandi upplýsingar væru á skjám þarna. Við komumst út á Kastrup án þess að borgað fyrir öll zone’in sem við fórum í gegnum. Þegar við komum á Kastrup sáum við að flugvélin var ekki að fara á þeim tíma sem við héldum heldur svona 45 mínútum seinna, við skoðuðum miðann okkar og þá kom í ljós að okkur hafði misminnt tímasetningin, ég minnti þá Eygló á að ég hafði einmitt spurt hana fyrr um daginn hvort hún væri viss á brottfarartímanum og hún var það. Við settumst þá bara niður og hvíldum okkur enda dauðþreytt.
Þegar Iceland Express opnaði loksins básinn sinn fórum við þangað og lentum í biðröð, eftir smá tíma opnaði annar bás og við fórum þangað en þá bar svo til að fremst í biðröðinni var náungi sem vissi ekkert hvað hann var að gera. Hann virtist ekki skilja dönsku né ensku og að lokum þurfti hann að skreppa eittvað til að ná í farangurinn sinn sem hann hafði af einhverjum ástæðum ekki tekið með sér. Við skiptum þrisvar um röð og það var ekki gott.
Á Kastrup ákváðum við að fá okkur aðeins að borða og enduðum á Pizza Hut. Pizzurnar þarna voru vægast sagt vondar, ég hef verið að borða úrvalspizzur í Danmörku á einhverjum búllum og síðan fer á þekktan stað og maturinn er bara rusl. Við vöfruðum um verslunarsvæðið, ég keypti mér lítinn deili svo hægt sé að tengja tvö heyrnartól í eitt gat. Það gekk ágætlega að fara um borð í vélina en að sjálfssögðu var hálfvitinn úr afgreiðslunni síðastur inn.
Flugið var notalegt að mestu, nokkur ókyrrð reyndar en ég hlustað á Freak Kitchen og Woody Allen. Við hliðina á okkur í flugtaki sat ein af þessum íslensku frægu manneskjum sem ég veit ekki fyrir hvað er fræg fyrir utan einhver ástarsambönd. Þessi fræga manneskja byrjaði á að segja mér að hún væri að reyna komast heim sem fyrst vegna þess að hún hefði lent í bílslysi og kinninn hennar hefði farið illa, ég svaraði með einhverju ákaflega gáfulegu kommenti sem batt enda á samræður okkur. Fræga manneskjan var ekki að virða allar reglur og tróð að lokum matarbakka sem hún hafði verið að borða uppúr oní hólfið fyrir framan sig þannig að sósa lak úr, hún fór síðan sem betur fer í burtu, væntanlega til að sitja hjá áhugaverðu fólki.
Flugfreyjurnar voru ákaflega duglegar að hunsa Eygló þegar hún vildi fá afgreiðslu en angruðu mig nokkrum sinnum án þess að ég sýndi þeim nokkurn áhuga, þau gengu þrisvar fram hjá Eygló og í síðasta skiptið ætlaði ég að toga í vestisól kallsins en rétt missti af honum. Þegar kom að lendingu þá var ókyrrð og af einhverjum ástæðum byrjaði ég að spjalla við náungann fyrir framan mig um sameiginlega flughræðslu okkar, töluðum meðal annars hve slæmt það væri fyrir okkur að sitja hjá vængnum vegna þess að hann skelfur það mikið að maður ímyndar sér að hann rifni af, þetta var skemmtilegt samtal og reddaði okkur báðum í gegnum lendinguna.
Í fríhöfninni sáum við að Ísland var ekki að vinna Eurovision, ég bjóst ekki við því, ég bjóst við að lögin úr undankeppninni yrðu mest áberandi á toppnum en ég á eftir að athuga þá kenningu mína. Við lentum í vandræðum með sígarettukaup og hringdum austur til að vita hvort við ættum að kaupa box vegna þess að soft var ekki til, það er víst einhver bragðmunur á þessu en ég sé náttúrulega ekki muninn á kúk og skít. Eygló eyddi heillöngum tíma í að velja sér áfengi, hún fékk náttúrulega að kaupa tvöfaldan toll enda fer ég ekki að nýta mér þetta.
Það var notalegt að koma heim, þar biðu vegabréfin okkur, það var gott að við ákváðum að fá okkur svoleiðis til öryggis.
Ég á örugglega eftir að koma með einhverja punkta í viðbót um ferðina en núna ætla ég í sturtu og ég ætla að fara að sofa. Góða nótt og takk fyrir lesturinn.