Það er orðið ljóst hvaða plan Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að nota í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, það er svipað plan og þegar kosið var um flugvöllinn, það á að gera sem minnst úr atkvæðagreiðslunni og hægt er þannig að ef lögin verða felld þá geta þeir bara sagt að það sé ekki nógu merkilegt til að þeir segi af sér.
Hluti af þessari áætlun er þetta útspil Björns Bjarnasonar um 75% lágmarksþátttöku, oft hefur maðurinn sýnt að hann sé hálfviti en þarna toppar hann sig, ef að það verður 75% þátttaka í þessum kosningum þá væri það frábært en ekki lélegt. Það er talað um að miða við þátttöku í Alþingis- sveitastjórnar- og forsetakosningum þegar nær væri að miða við þá sem hafa tekið í sérstökum kosninum einsog um flugvallarmálið. Það hljóta að finnast einhver viðmið út í löndum sem við getum litið til. Annars þá er fyndið að Björn sé að krefjast 75% lágmarksþátttöku ef maður hugsar til þess hvað þátttaka var lítil í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum þar sem Bush vinur hans Björns náði ekki meirihluta þeirra atkvæða sem voru greidd, né yfirhöfuð fleiri atkvæði en mótframbjóðandinn.
Síðan verður mikið gert úr því að fólk þekki ekki til fjölmiðlafrumvarpsins en andstaða fólks var ekki endilega við innihaldið heldur hvernig átti að ryðja þessu í gegn, það er orðið gróft þegar maður heyrir sjálfstæðismenn tala um að það þurfi að slá á hendina á Davíð.
Þessu tengt þá fór ein frétt einhvern veginn afar lágt, það er að Skífan var seld um síðustu helgi. Gleði mín er algjör vegna þess að það sem ég hef yfirleitt haft mest á móti Norðurljósum var það hvernig hagsmunum Skífunnar var alltaf þjónað á útvarpsstöðvunum, nú eru þessi tengsl að hverfa og því minni ástæða fyrir því að vera að níðast á Norðurljósum. Ég myndi að sjálfssögðu líka vilja að kvikmyndahúsin yrðu aðskilin frá þessu líka og ég yrði ekki hissa þó að það muni gerist í framtíðinni.
Það er líka gott að muna að Jón Ásgeir er allavega mun skárri en nafni hans Ólafsson (vondi).