Við kusum í fyrsta sinn sem Reykvíkingar í dag, þurftum þar af leiðandi að finna staðsetningu Hagaskóla. Þetta gekk vel fyrir utan hve hvasst var. Í kjörklefanum þá íhugaði ég augnablik að stoppa í smá tíma og þykjast hugsa en hætti við það og krossaði bara við Ólaf einsog ég hefði gert hvorteðer.
Það var annars skrýtið að í morgun þegar við vorum að tala um hvað við þyrftum að gera í dag þá mundum við ekki strax eftir því að það væru kosningar, það er enginn kosningafílingur enda engin raunveruleg spenna um úrslitin. Kannski hefði verið gáfulegra af Ólafi að taka aðeins þátt í kosningabaráttunni til að hvetja fólk til að kjósa. Núna er staðan óheppileg að því leyti að fjölmargir hafa ekki nennt á kjörstað án þess þó að hafa ætlast til þess að sú athöfn yrði túlkuð sem andstaða við Ólaf þó þetta verði væntanlega gert. Það að mæta á kjörstað og skila auðu er raunveruleg afstaða ólíkt því að mæta ekki.
En hvað um það, nú munu andstæðingar Ólafs túlka úrslitin sem ósigur fyrir hann á meðan stuðningsmenn hans munu segja að hann hafi sigrað. Ólafur getur allavega verið ánægður með eitt, hann var ekki kosinn sem puntdúkka.
Var ég ekki örugglega fyrstur að benda á að allar forsetaframbjóðendafrúrnar væru af erlendu bergi brotnar? Ég held það.
Ég sá afa í sjónvarpinu áðan, hann var að kjósa á Akureyri, ég efast ekki að hann hafi kosið rétt. Gaman að sjá kallinn.