Ef þið nennið ekki að lesa þessa útlistingu þá get ég í stuttu máli sagt að Rossopomodoro er skítastaður, ekki fara þangað.
Jæja, við fórum á Rossopomodoro í kvöld til að halda upp á afmæli tvíbbanna en það fór illa. Til að byrja með áttum við að vera á reyklausu borði en það var mislukkað nema að því leyti að við reyktum ekki, á þremur borðum sem umkringdu okkur var reykt, ég kvartaði við yfirmanninn sem sagði að þegar fólkið færi af þessum borðum þá yrðu borðin reyklaus, ég sætti mig við það af því ég vildi ekki nöldra af mikið í afmæli stelpnanna.
Síðan fórum við að panta, reyndar tók það töluverðan tíma að fá þjónustu en síðan virtist þetta ætla að takast eða reyndar ekki, ég varð ævintýragjarn og bað um steikta pizzu. Þjónustufólkið var sífellt að trufla okkur með því að koma með hluti sem við höfðum ekki pantað. Við Eygló fengum forréttinn okkar á réttum tíma og eftir þægilega langan tíma fékk Eygló aðalréttinn sinn. Sigga fékk líka mat en fannst hann eitthvað skrýtinn, eftir smá tíma vaknaði grunur um að þetta væri maturinn hennar Evu og fékkst það síðan staðfest. Heiða, Oddný og Guðrún Fönn fengu matinn á cirka réttum tíma líka. Við bentum á að Sigga hefði fengið vitlaust og eftir smá tíma var eitthvað látið fyrir framan mig sem líktist bakaðri pizzu (það sem Sigga pantaði), miðað við þá vitleysu sem hafði viðgengist þá gerðum við ráð fyrir að Sigga ætti þetta.
Á þessum tímapunkti fór fólk af reykborðinu og öskubakkinn var tekinn, stuttu seinna kom annað fólk og bað um öskubakka og fékk hann. Ég spyr hvernig í helvítinu á borð að teljast reyklaust þegar fólk er að reykja í innan við hálfsmeters fjarlægð? Ég kvartaði aftur en ekkert var gert þrátt fyrir fyrri loforð.
Á þessum tímapunkti höfðum við Hildur ekki fengið neitt. Eftir þónokkurn tíma þá fékk síðan eitthvað sem leit alls ekki út fyrir að vera steikt pizza heldur hálfmáni, þá áttuðum við okkur á að það sem Sigga hafði fengið var mín pizza en þetta var hennar. Ég fór síðan að skoða þetta sem var kallað steikt pizza á matseðlinum og ég komst að raun um að þetta væri í raun djúpsteiktu hálfmáni, hvorki ég né Sigga höfðum lyst á þeim viðbjóði, ég hélt að steikt pizza væri eitthvað í átt við pönnupizzu. Eftir dáltinn tíma í viðbót þá fórum við að spyrja um pizzuna hennar Hildar og þá kom í ljós að hún var ekkert á leiðinni. Nú voru liðnar allavega 45 mínútur frá því að Eygló fékk sinn rétt.
Ég var orðinn ákaflega fúll, ég bað um að fá að hitta yfirmanninn en fékk það ekki. Ég endaði því á að vera við afgreiðsluborðið (og við þurftum að bíða töluvert þar) þegar fólkið var að borða og útlistaði hvað hver ætti að borga, Hildur fékk að lokum sína pizzu og þurfti ekkert að borga (það var það eina sem afgreiðslufólkið bauðst til að gera). Ég útskýrði að Sigga ætti ekkert að borga og að Eva ætti að fá stóran afslátt fyrir að maturinn hennar var látinn hjá öðrum. Allir hinir fengu einhvern smá afslátt.
Ég fékk reyndar minnstan afslátt fyrir mig og Eygló enda var ég orðinn svo leiður á þessu rugli, ég hafði reynt að spyrja afgreiðslumanninn um hið ranga heiti pizzunnar sem ég pantaði en hann vældi eitthvað um þýðingu af ítölsku. Spurning hvort ítalska heitið sé heimskulegt til að byrja með eða hvort þýðandinn hafi verið lélegur í ítölsku og/eða íslensku, ég heyrði allavega að sín á milli kallaði starfsfólkið þetta djúpsteikta pizzu en ekki steikta pizzu. Ég kvartaði líka yfir reyk ástandinu en hann virtist ekki skilja að það væri eitthvað að þessu (náuginn minnti ákaflega á leiðinlega samverkamann Jennifer Aniston í Office Space, bara ekki jafn hress).
Satt best að segja hefði sanngjarnt verð fyrir þessa máltíð verið borgun af hálfu Rossopomodoro til okkar, á tímabili vorum við að ræða að ganga út. Það er einstaklega leiðinlegt að þurfa að þola þetta þegar markmiðið var að halda upp á afmæli.