Einkunn komin í skjalastjórn og ég er ekki ánægður en þó ekki fúll. Þetta var þriðja prófið sem ég fór í á fimm dögum og mér þótti í raun óheyrilega erfitt að koma mér úr félagsfræði/heimspeki hugsunarganginum yfir í þann upplýsingafræðilega. Síðan hafði ég kolvitlausar áherslur í lesefninu. Ég sætti mig samt alveg við 7 þó að það sé í raun fyrir neðan meðaltal (og síðan reyni ég alltaf að muna eftir öllum þeim sem skráðu sig en tóku ekki prófið, þá er einkunnin ekki of slæm).
Annars er flennistór mynd af mér í DV í dag og ég spurður hvernig það sé að vera trúlaus. Greinin er ágætt og ég er viss um að greinarhöfundur hefur hjálpað aðeins til við að setja þetta upp á vitrænan hátt því ég er viss um að ég var voðalega samhengislaus þegar hún talaði við mig.
Það var semsagt hringt í mig á föstudaginn og ég spurður að þessu, síðan varð síminn minn batteríslaus. Ég hringdi aftur og enginn svaraði, ég hringdi aftur aftur og þá svaraði hún. Eftir smá tal þá varð síminn minn innistæðulaus, ég fyllti á hann og hringdi enn aftur og þá bað hún um að fá að hringja í mig til þess að þetta gengi betur. Síðan kom ljósmyndari og tók af mér mynd sem er bara ágæt. Annars þá var það í jóladagatali Stöðvar 2 en ekki Sjónvarpsins sem þessi hrikalega setning kom sem ég vitnaði í.