Einar Örn vísar á bloggfærslu hjá einhverjum Halla. Þessi Halli er að fjalla um fréttaflutning af Örnu sem lenti í yfirheyrslu hjá Ísraelsmönnum, málflutningur Halla er í stuttu máli: Fólk víðsvegar um heiminn á mikið meira bágt en Arna og því hefði ekki átt að fjalla um málið.
Verð að segja að mér finnst lítið til þessa málflutnings koma, þetta er eiginlega nákvæmlega einsog þegar fólk er að tala um fátækt fólk á Íslandi og fær þau svör að fátækt út í löndum hafi það miklu verra og því sé óþarfi að ræða þau vandamál sem eru hérna.
Ég ætla núna að snúast til varnar þjóðhverfum fréttaflutningi þó hann pirri mig stundum. Ef það verður bílslys á Reykjanesbraut þá er það frétt, ef það er bílslys á hraðbraut í Þýskalandi þá er það ekki frétt (nema að Íslendingur hafi verið þar). Þetta er í raun fullkomlega eðlilegt, bara einfaldlega mannlegt eðli. Það sem er nær okkur skiptir okkur meira máli.
Ástæðan fyrir því að ég tel það gott að það sé fjallað sem mest um mál Örnu er einfaldlega vegna þess að um leið þá verður ástandið í Palestínu nær Íslendingum, þetta vekur fólk til umhugsunar um ástandið almennt þó að dæmið sé sértækt. Arna sjálf lætur ekki einsog þetta sé voðalega hræðilegt atvik þó að það hafi að sjálfssögðu komið illa við hana. Ég held að fæstir viti það betur en hún að það er til fólk sem er mikið verra statt þarna úti.
Vissulega væri gott ef fjölmiðlar stæðu sig betur í að fjalla um heimsmálin en það er því miður ekki þannig. Það þarf eitthvað til að koma fólkinu hér í tengsl við fólkið þarna. Í raun er fátt betra en að Íslendingar fari út í heim og veiti okkur hinum um leið aðeins betri skilning á því. Þetta gerir málin persónulegri, þetta hjálpar raunverulega til þess að við áttum okkur (“sem pæla aldrei jafn djúpt í heimsmálunum” einsog Halli segir) aðeins betur á því hvernig heimurinn virkar.