Ég tók greinilega ranga ákvörðun þegar ég ákvað að taka þátt í umræðum um höfundaréttarmál hjá Vilhjálmi “Fornleifi” á Moggablogginu. Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson heldur því fram að vefritið Herðubreið hafi brotið höfundalög með því að nota ljósmynd sem hann tók.
Ljósmyndin sem um ræðir er mynd sem hann tók af gamalli blaðaauglýsingu frá Eimskip og hún ætti að sjást hérna fyrir ofan færsluna. Herðubreið tók vissulega hluta af myndinni og notaði án þess að geta þess að Vilhjálmur hefði tekið hana. Vilhjálmur telur þetta vera brot á höfundalögum en ég er ósammála.
Ástæðan fyrir því að ég tel þetta ekki falla undir höfundalög er sú að myndin getur aldrei talist sjálfstætt verk. Hún er bara afrit. Vilhjálmur var ekki að reyna að skapa nýtt verk þegar hann tók mynd gamalli auglýsingu. Markmið hans var þvert á móti, eins og fræðimanni sæmir, að búa til eins nákvæmt eftirrit af blaðsíðunni og hann mögulega gat. Íslensk höfundalög skilgreina eintakagerð og ég sé ekki betur en að umrædd ljósmynd sé einmitt …
sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er. Það telst m.a. eintakagerð ef verk er flutt yfir á miðil sem nota má til endurmiðlunar.
Eintök eru ekki og verða ekki sérstök verk sem njóta verndar höfundalaga. Ég held reyndar að Herðubreið hefði átt að, kurteisinnar vegna, að vísa á Vilhjálm þegar þeir birtu myndina en ég sé ekki að vefritið hafi brotið nein lög með þessu.
Það sem ég er að tala um er frumleikaskilyrðið svokallaða. Það eru mörg grá svæði í því en hérna held ég að málið sé svart og hvítt. Það er ekkert frumlegt við myndina og það var engri sköpun beitt við myndatökuna sjálfa. Vinnan sem Vilhjálmur lagði á sig var fræðimennska en ekki ljósmyndun. Það var afrek finna auglýsinguna og við getum borið virðingu fyrir þeirri vinnu þó við teljum verkið ekki eiga að njóta verndar höfundalaga.
Í athugasemdarþræðinum, sem þið lesið á eigin ábyrgð, talar Vilhjálmur um að Myndstef telji lagatúlkun hans gilda. Ef það er rétt þá er það afskaplega einföld bókstafstúlkun á lögum sem ég efast um að nokkur dómstóll myndi taka undir.
Vilhjálmur er einskonar karlkyns Jón Valur. Þú færð ansi mörg prik fyrir að nenna að standa í þessu.
Annars feitt “læk”.
Mér finnst Vilhjálmur reyndar vera töluvert merkilegri en JVJ. Hann dregur stundum fram áhugaverða punkta og það er ástæðan fyrir því að ég nenni að lesa hann einstaka sinnum. En við erum sjaldan skoðanabræður.