Vegna fréttaflutnings af andláti og útför Filippusar drottningarmanns þá hefur mikið verið rætt um nafnið hans. Það eru margir sem kvarta yfir því að það sé verið að þýða það á íslensku og segja að það eina rétt sé að kalla hann Philip.
Nú verð ég að taka fram að mér er alveg sama hvort fólk segir Philip eða Filippus. Mér finnst það hins vegar kjánalegt að halda því fram að það eigi að skrifa og segja Philip.
Mig grunar að hér sé fólk ranglega að tengja íslenskar útgáfur af kónganöfnum við ósanngjörn íslensk nafnalög sem neyddu innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn eða grínþýðingar á nöfnum erlendra poppstjarna sem voru gjarnan notaðar í æsku minni. Þetta er ekki einhver séríslenskur siður heldur eitthvað sem hefur fylgt kóngafólki í gegnum aldirnar.
Í dag tengjum við kóngafólk oft við þjóðir og, um leið, tungumál. En í sögu Evrópu þá hefur það alls ekki verið reglan. Kóngar og drottningar ríktu yfir mörgum þjóðum. Einn af fylgifiskum þess var að kóngafólkið notaði mismunandi útgáfur af nöfnum sínum. Þetta voru allra þjóða kvikyndi.
Það er ágætt að hafa í huga er að kóngafólkið flakkaði um, allavega dæturnar. Þegar Maria Antonia fór til Frakklands var hún kölluð Marie Antoinette. Þetta var franska útgáfan af nafninu hennar.
Viðhorfið var sumsé að nöfn hefðu hliðstæður í mismunandi tungumálum. Þannig var ekki hugsað um þetta sem þýðingar heldur útgáfur af sama nafninu. Nöfnin voru líka oftast til í latínu og, sérstaklega innan kaþólskra ríkja, þá var hægt að líta á sem latínunafnið sem formlegu útgáfuna. Þó breska útgáfan af kónganafninu hafi verið James þá kölluðu fylgismenn kóngsins sig Jakobíta. Frá þeim sjónarhólki er auðvelt að skilja hvers vegna það er eðlilegt að kalla þessa kónga Jakob á íslensku.
Síðan má bæta því við að kónganöfnin eru ekki nærri því alltaf persónulegu nöfn þeirra. Fólki finnst kannski asnalegt að kalla kónginn Játvarð áttunda en vinir og vandamenn kölluðu hann alltaf David. Þannig eru kónganöfnin jafnvel líkari titli heldur en eiginnafni.
Filippus drottningarmaður var grískur, danskur, breskur, þýskur og örugglega margt fleira. Hann var upprunalega grískur prins og fékk nafnið Φίλιππος eða Fílippos. Þar sem hann var tengdur fullt af kóngafjölskyldum þá hefur hann alist upp við að vita að nafnið hans væri til í ótal útgáfum. Við sjáum líka hér að íslenska útgáfan af nafninu er mun nær því upprunalega heldur en sú breska.
Mér finnst alltaf undarlegt að líta á stafsetningu nafns sem óumbreytanlega. Þegar Jóhanna Guðrún reyndi fyrir sér á erlendum vettvangi kallaði hún sig Yohanna. Fólk bókstaflega missti sig í kommentakerfunum og sagði að hún væri að breyta nafninu sínu. En hún var bókstaflega að verja nafnið sitt með því að aðlaga stafsetninguna. Fyrir henni var það greinilega mikilvægara að reyna að hafa frumburðinn réttan. Heitir fólk frekar nöfnum eins og þau eru skrifuð eða eftir því hvernig þau eru sögð? Ég held að fólk ætti að fá að ráða því sjálft.
Þegar íslenska ríkið neyddi innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn þá var það oft vanvirðing. Reyndar má ekki gleyma innflytjendum sem gátu tekið upp íslensk nöfn sem voru hliðstæð upprunalega nafninu og voru bara glaðir. En auðvitað voru margir mjög ósáttir.
Þannig að mig grunar að margir telji það einhvers konar vanvirðingu við Filippus að nota íslenska útgáfu af nafninu hans. Ég efast stórlega um að hann hafi hugsað þannig. Það er miklu líklegra að kóngafólk telji ákveðna virðingu fólgna í því að fólk noti hliðstæð nöfn milli tungumála. Það er bara hluti af pakkanum.
Þannig að þó mér sé sama hvaða útgáfu þið notið af nafninu hans þó ættuð þið ekki að láta ykkur detta í hug að breska útgáfan sé sú eina rétta eða að það sé einhver sérstök virðing fólgin í að nota hana.