Hve erfitt er að skilja að trúleysingjar vinna ekki hjálparstarf í nafni trúleysis? Þeir vinna oftast í gegnum „veraldleg“ hjálparsamtök og eru því ekki áberandi. Þeir eru ekki auglýsingastarfi í sínu hjálparstarfi. Svona yfirlýsingar eru móðgandi fyrir ótal trúleysingja um allan heim sem vinna gott starf án þess að ætlast til þess að trúleysi þeirra fái kredit fyrir það.
Það að kirkjur noti hjálparstarf, sem er oft illa dulbúið trúboð, til að auglýsa trúarbrögð sín segir ekkert um það hvort trúleysingjar séu að vinna hjálparstarf eður ei. Þurfa trúleysingjar í alvörunni að taka upp merki trúleysis ef þeir ætla að vinna hjálparstarf til þess að sýna fram á að trúlausir vinni góðverk? Er eitthvað vit í því? Af hverju ekki að vinna saman án þess að þurfa að gera það í nafni einhverja trúarskoðana?
Rauði Krossinn, SOS barnaþorp, Heimsforeldrar (allt hjálparstarf SÞ svosem) og Læknar án landamæra eru örfá dæmi um hjálparsamtök sem byggja ekki á trúarbrögðum. Þarna geta trúaðir og trúlausir sameinast um gott starf án þess að blanda trúarbrögðum inn í málið.