Fun Bobby syndrómið

Í Friends kom fram persónan Fun Bobby sem var alltaf skemmtilegur af því hann var alltaf fullur, þegar Fun Bobby fór í meðferð varð hann daufur. Ég hef þá trú að margir haldi að þeir séu Fun Bobby þegar þeir eru fullir á meðan aðrir í kringum þá hafa aðra skoðun á því (nema kannski ef þeir eru jafn fullir). Fullt fólk sem heldur að það sé skemmtilegt er líklega leiðinlegasta fólk í heimi, það er alveg að drepast úr ánægju yfir því hvað það er skemmtilegt og á afar erfitt með að skilja ábendingar um hið gagnstæða.

“Áfengi opnar mann”, “áfengi losar um hvatirnar”, mín reynsla er að áfengi (í óhófi) gerir þig leiðinlegan. Það væri að vísu þægilegt ef ég gæti sagt að þetta ætti við um alla og ég gæti sagt að allir verði hundleiðinlegir með áfengi en því miður er það ósatt. Örfáir geta drukkið sig fulla og verið skemmtilegir, þannig verður Fun Bobby ímyndin til. Það eru fleiri sem geta drukkið smávegis og orðið opnari en það er síðan lína sem fólk fer yfir og verður leiðinlegt. Ég get allavega verið viss um að það eru miklu fleiri þarna úti sem halda að þeir séu Fun Bobby heldur en raunverulegir Fun Bobby.

Ef þér finnst besta leiðin til þess að verða fyndinn og skemmtilegur vera sú að drekka þig fullan og að vera í kringum fullt fólk þá áttu við vandamál að stríða.

Endilega drekkið í hófi en ekki vera hissa ef ég nenni ekki að umgangast ykkur þegar þið haldið að þið séuð stórskemmtileg. Þessi pistill er tileinkaður þeim sem eru í meðferð eða eru að spá í að skella sér í merðferð (og þar að auki þeim sem þurfa að fara í meðferð en hafa ekki áttað sig á því).