Bölmóðssýki og brestir…

Ég valdi titilinn á færsluna áður en ég skrifaði hana þannig að ég verð að standa við stóru orðin. Ég stefni á að vakna í fyrramálið og hlusta á fyrirlestra um færeysku. Þetta geri ég þó að enginn ætli með mér. Sumir taka kirkjuferðir fram yfir og aðrir liggja veikir heima. Mun ég vakna? Í nótt kláraði ég Bláu trén í Friðheimum. Það var nokkuð merkileg lesning af tveimur ástæðum aðallega. Sú fyrri skiptir meira máli, það er að bókin fjallar um ömmubróður minn og minnst er á nokkuð af ættingjum mínum þarna. Reyndar er ekki talað neitt um ömmu né afkomendur hennar en það er þó mynd af Jóhönnu frænku þarna. Það er dáltið talað um Þórodd langafa, ekkert sérstaklega jákvætt en ekki of neikvætt. Hólmfríður og Svana koma nokkuð við sögu. Þór tvíburabróðir Njáls kemur einna sterkast fram þó ekki sé talað of mikið um hann.

Seinni ástæðan fyrir áhuga mínum fyrir bókinni er sú að hún fjallar um mann sem eyðileggur líf sitt með því að sökkva sér ofan í trúardellu. Njáll féll fyrir bókinni Oahspe og varð hluti af því költi sem í kringum það spratt. Þessari bók má að vissu leyti líkja við Mormónsbók annars vegna og Scientology hins vegar. Biblíulegt þvaður með góðum skammti af vísindaskáldskap. Ég kíkti aðeins í þetta og þó ég sé vanur svona rugli þá er þetta svoltið sér á báti.

Liliane, sem var gift Njáli, segir að það hafi verið Þór bróðir hans sem kom honum inn í dulspekidótið. Ég get trúað því. Þór hafði líka töluverð áhrif á mig, bara í hina áttina. Þegar hann, þessi maður frá Kalefornja, kom til Akureyrar þegar ég var lítill þá eyddi ég dáltlum tíma með honum. Hann var mjög spes. Hann var fyrsta grænmetisætan sem ég kynntist. Þór kom með mikið af grænmeti með sér og líka blandara til að hakka þetta saman. Man ekki eftir að hann hafi reynt að fá mig til að borða þetta. Við röltum saman niðrí bæ og ég hlustaði á hann spjalla við rakara sem hann þekkti um skuldir Bandaríkjanna. Ég man að ég spurði hann hvað hann var gamall og hann brást ákaflega illa við því.

En Þór kom til landsins til að tala um dulspeki. Þótti nokkuð merkur maður á sviðinu. Ég fletti í Gagnasafni Moggans, skönnuðu blöðunum, og fann þar auglýsingar um námskeið hans frá sjöunda áratugnum þar sem hann er titlaður séra Þór Þóroddsson. Þar er talað um allskonar rugl og öllu sópað saman í einn graut. Lilian segir að hann hafi verið huglæknir, hvað sem það þýðir. Ég reyndi að lesa eina bókina sem hann kom með sér í eitt skiptið, algjör þvæla. Innihaldslaust nýaldarrugl, gervivísindi og bull. Ég man eftir að hafa setið og hlustað á hann spjalla um pólskipti og eitthvað því tengt í stofunni hjá afa og ömmu. Man líka þegar ég var nokkrum árum seinna í jarðfræðitíma hjá Jónasi Helgasyni í MA þar sem hugmyndir nýaldarsinnar um þau mál voru díbönkuð. Ég hugsa oft um Þór þegar ég er að taka fyrir eitthvað nýaldarkukl, á vissan hátt þá hvetur hann mig áfram.

Þór er enn á lífi í Kalefornja. Ef maður gúgglar hann getur maður fundið upplýsingar um skákferil hans og einnig upplýsingar um það hvernig hann styrkti kosningabaráttu Bush í fyrra. Þór var/er víst líka á því að þungarokk væri frá Djöflinum. Rokk on. Við eigum allavega skákina sameiginlega.

Njáll tefldi líka. Það sem er sorglegt við Njál er að hann hafði alla möguleika til þess að gera líf sitt gott. Hann varð Íslandsmeistari í langhlaupi og var greinilega mjög góður garðyrkjumaður. Njáll ferðaðist líka um heiminn, fór meðal annars til Ghana. Hann kynntist franskri konu, þau ættleiddu strák, en síðan sökk Njáll í kuklið. Miðað við það sem Liliane segir þá varð hann hálfeinangraður frá fjölskyldu sinni. Hann einangraði sig svo sem líka frá sveitungum sínum. Eftir að Liliane fór frá Íslandi þá reyndi Njáll allt sem hann gat til að útbreiða Oahspe ruglið en ekkert gekk. Síðustu árin var hann mjög veikur og gat allavega undir það síðasta ekki haft samskipti við fólk.

Ástæðan fyrir því að ég fór að hugsa um Njál var að ég rakst á minningargrein sem hann skrifaði um Svavar föðurbróður minn. Ég var nokkuð áhugasamur að lesa greinina en eftir fyrstu málsgreinina eða svo varð ljóst að greinin snerist aðallega um trú Njáls en varla neitt um Svavar. Þetta var eins og hálfgert trúboð. Ég varð dáltið reiður við Njál þegar ég las þetta en eftir að hafa kynnt mér líf hans þá vorkenni ég honum aðallega… Sorgarsaga.