Kísinev (ágúst 2024)

Ferðin til Kísinev byrjaði með panikki. Þegar ég fann upplýsingaskilti um flug dagsins sá ég að ferð flugfélagsins FlyOne til Kísinev klukkan 8:20 hafði verið aflýst. Ég eyddi örugglega korteri í að reyna að finna lausnir áður en ég uppgötvaði að það hefðu verið tvö flug með sama flugfélagi á nákvæmlega sama tíma og einungis öðru þeirra hafði verið frestað. Það var mikill léttir.

Flug til Kísinev hafði verið fellt niður.

Þegar ég kom að hliðinu tók við undarlegur leikur þar sem allir sem voru með rafræna farseðla fengu í staðinn pappírsmiða. Það olli miklum misskilningi hjá okkur sem töluðu ekki moldóvsku.

Þegar ég var nýbúinn að koma mér fyrir í þrönga sætinu mínu í flugvélinni á leið til Kísinev kom til mín flugfreyja og benti mér að setjast við neyðarútgang. Þetta var einmitt eitt af þeim sætum sem ég hefði þurft að borga aukalega fyrir ef ég hefði valið mér sjálfur sæti í bókunarferlinu. Flugfreyjan benti mér á nákvæmlega allt sem ég þurfti að gera. Sú staðreynd að hún talaði ekki ensku náði ekki að slá hana af laginu nema eitt augnablik. Ég tók hlutverk mitt jafn alvarlega og alltaf þegar ég hef fengið sæti á þessum stað. Ég vissi alveg nákvæmlega hvernig ég myndi bregðast við og var alveg tilbúinn. Ólíkt gaurnum hinum megin við ganginn sem virtist taka þessari ábyrgð af léttlæti.

Það var flugfreyjusæti á móti mér við neyðarútganginn. Það sæti var um leið við hliðina á næstu sætarröð fyrir framan mig. Þar sat karlmaður á mínum aldri sem eyddi bæði flugtaki og lendingu í að reyna að daðra við flugfreyjuna sem reyndi endalaust að sýna honum kurteisislega að hún hefði engan áhuga á að spjalla við hann.

Flugvöllurinn í Kísinev minnti meira á innanlandsflugvöll en alþjóðlegan. Þar af leiðandi var ekki sama staðleysa og ég upplifi venjulega á slíkum stöðum. Í vegabréfaskoðuninni lenti ég í undarlegum samskiptum þar sem landamæravörðurinn hafði náð að bíta í sig að ég væri frá Úkraínu. Mig grunar að liturinn á vegabréfinu hafi ruglað hann.

Ég hafði lesið viðvörunarorð um leigubílstjóra við flugvöllinn sem reyna að svindla á ferðamönnum. Þess vegna er einfaldlega opinber verðskrá um hvað má rukka. Þegar ég kom út sá ég lögregluna reyna að hafa stjórn á ástandinu þar. Samt kom strax til mín bílstjóri sem reyndi að rukka mig um þrefalt verð. Ég afþakkaði og endaði með að prútta einn niður í þolanlegt verð. Þar sem gengi moldóvska Lei’sins er mjög lágt þá var þetta fyrst og fremst spurning um einhverja íslenska hundraðkalla.

Aksturslagið sem ég varð vitni að á leiðinni inn í Kísinev var slíkt að ég fór að hafa áhyggjur af því að vera gangandi vegfarandi í borginni. Það var endalaust verið að gefa í og bremsa. Ég komst þó heill á hótelið (Regency Hotel) sem kom þægilega á óvart. Ég hafði reyndar passað sérstaklega að fá herbergi með loftkælingu sem var algjörlega nauðsynlegt. Það var líka fínn míníbar sem ég gat tæmt til að koma fyrir vatnsflöskum.

Míníbarinn.

Ég var með litlar “brunasvalir” á herberginu mínu. Þar var ágætt útsýni yfir tré. Það var ákaflega mikið af trjám í Kísinev. Það gerði mér stundum erfitt fyrir þegar mig langaði að taka myndir, sérstaklega af húsunum.

Útsýnið af svölunum.

Ég mætti í morgunmat á hverjum degi og alltaf rakst ég á fólk í landsliðsbúningum. Það tók mig smá tíma að átta mig á hvað væri í gangi. Venjulega er fólk sem tilheyrir landsliði frekar svipað. Þarna var hins vegar fólk af öllum stærðum og gerðum. Að lokum náði ég að rýna í landsliðsbúning Suður-Afríku og sá að þarna var fólk í heimsmeistaramótinu í sjómann. Ég íhugaði að útskýra fyrir þeim íslenska nafnið á þessari íþróttagrein og var búinn að ákveða að nota orðið “sailor” frekar en “seaman”. Mig langaði líka að spyrja hvort þau væru ekki öll aðdáendur myndarinnar Over The Top með Sylvester Stallone (ekki ein af hans bestu).

Rétt hjá hótelinu, eiginlega bara handan við hornið, var matvöruverslun sem ég nýtti mér töluvert. Merkingar á vörunum voru nær allar á rúmensku og rússnesku þannig að ég átti stundum erfitt með að finna það sem ég vildi. Ég greip mér poka af Lays-flögum einn daginn til að hafa eitthvað kunnuglegt að maula en þegar ég smakkaði var bragðið undarlegt. Þegar ég rýndi í merkingarnar kom í ljós að það var ekki bara sýrður rjómi og laukur heldur var líka dill. Mér þótti það ekki góð viðbót. Keypti næst Pringles sem var ekki að rugla neitt í uppskriftinni.

Þegar ég var að koma mér af stað uppgötvaði ég að ég hafði misskilið staðsetningu hótelsins. Ég hafði séð fyrir mér að það væri hinum megin við götuna. Þetta þýddi að hugarkortið sem ég hafði búið til af borginni sneri öfugt miðað við hótelið. Þannig að það sem var erfiðast við að rata var að muna í hvaða átt ég ætti að labba burt frá hótelinu. Þetta var vandamál alla dvöl mína þarna.

Bannað að stöðva skiltið vakti gleði mína.

Þegar ég var búinn að ganga um borgina í einhvern tíma áttaði ég mig á að þó bílstjórar virtust endalaust vera að hamast og gefa í þá voru þeir nær alltaf fullkomlega tillitssamir við gangandi vegfarendur. Bílar stoppuðu nær alltaf þegar ég tók mér stöðu við gangbraut.

Kísinev er falleg borg. Það sem ég hafði lesið mér til um benti til þess að þarna væri mikið um sovéskar brútalískar byggingar. Ég gæti haft mjög rangt fyrir mér varðandi skilgreiningar í arkitektúr en ég sá fá dæmi um það sem ég hugsa um sem hefðbundin dæmi um þennan byggingarstíl. Það var lítið um hráa steypuveggi og þessi níutíu gráðu horn og kassa. Reyndar var töluvert um byggingar sem var búið að hreinsa úr að innan og voru í sovéskum stíl.

Mér fannst aðallega áberandi hve blandaður byggingarstíllinn var í Kísinev. Það var mikið um nýklassískan stíl. Kirkjurnar bera ekki mikinn keim af rússneskum réttrúnaðarkirkjum en þegar ég leitaði að myndum af kirkjum í Búlgaríu sýndist mér áhrifin þaðan vera meiri. Einnig voru byggingar sem mér þóttu helst minna á Miðausturlönd. Á sumum stöðum var jafnvel hálfgerður Miðjarðarhafsstíll.

Moldóva er víst næst fátækasta ríki Evrópu. Það var þó ekki áberandi fátækt þarna. Vissulega var þarna að finna betlara en ekki meira en í sumum ríkari löndum sem ég hef heimsótt. Það var þó eitthvað um hús sem voru að drabbast niður eða þurftu á málningu að halda.

Risavaxinn flóamarkaður borgarinnar bar kannski þess helst merki um að kjör íbúa væru ekki jafn góð og þau virðast á yfirborðinu. Þar var aðallega að finna notuð föt og ég fann meðal annars eina gamla íslenska landsliðstreyju. Ég keypti þó ekkert þó einhverjar sovéskar minjar hafi gripið auga mitt. Tungumálamúrinn skipti þar töluverðu en ég er bara ekkert rosalega hrifinn af því að prútta um óverðmerkta hluti. Það voru líka nokkrir básar tileinkaðir hermunum og jafnvel vopnum (fyrir utan alla hnífana sem fundust víða).

Ég fjárfesti ekki í þessari.

Það er erfitt að lýsa hve stór þessi flóamarkaður var. Á kortinu er hann sýndur á mjög takmörkuðu svæði en um hálfum kílómetra áður en ég kom þangað voru allar gangstéttar þéttsetnar af fólki sem var að selja vörur af ýmsu tagi. Sá hluti markaðarins virtist ná í allar áttir. Ég gerði tilraun til þess að labba í gegnum alla anga sem ég fann með söluvarningi en ég þurfti á endanum að gefast upp.

Markaðurinn er staðsettur handan við lestarteina. Auðvitað er brúin þar yfir uppfull af söluvarningi. Þegar komið er inn á þetta afmarkaða svæði tók við völundarhús af stígum og tjöldum. Ég hef enga hugmynd um hve mikið ég náði að skoða af markaðnum. Þetta var einfaldlega yfirþyrmandi.

Í miðborg Kísinev er annars konar markaður með nýjum vörum. Endalausir básar og tjöld hýsa allskonar varning, þó aðallega föt. Það var nærri jafn mikið völundarhús og flóamarkaðurinn. Þar keypti ég mér vel verðmerkta húfu til þess að þola betur sólina.

Markaðurinn í miðborginni.

Hitastigið yfir hádaginn í Kísinev var uppundir 34 gráður flesta daga sem ég var þar. Fyrirfram hafði ég áhyggjur af því hvernig ég myndi plumma mig í þessum hita en þetta var ekki sérstaklega slæmt. Mig grunar að hérna gegni rakastigið lykilhlutverki. Ég þurfti reyndar að passa eigið rakastig ákaflega vel og drakk mjög mikið vatn yfir daginn án þess að það ylli tíðari salernisheimsóknum.

Malldova

Einn daginn ákvað ég að kíkja inn í verslunarmiðstöð bara til þess að njóta loftkælingar. Sem eru ekki merkilegt en samt sem áður afsökun fyrir mig að nefna að hún heitir “MallDova.”

Tungumálamúrinn var mitt helsta vandamál í Kísinev. Það var ákaflega sjaldgæft að rekast á fólk sem talaði ensku. Hver einustu samskipti við afgreiðslufólk voru frústrerandi (ég endaði meira að segja á því að borða á McDonald’s þar sem ég gat bara stillt tungumál sjálfsafgreiðsluvélarinnar á ensku). Það hjálpaði mér þó töluvert að moldóvska (eða bara rúmenska eftir því hvernig litið er á það) er rómanskt tungumál. Þannig að ég gat skilið eitthvað af ritaða málinu. Síðan notaði ég símann til að finna þýðingar á því sem ég gat ekki skilið. Færni í að lesa hjálpaði nær ekkert með talað mál. Einu sinni fór ég bara á heimasíðu veitingastaðar og benti á matinn sem ég vildi fá mér.

Það er hluti af þjóðarmeðvitund í Moldóvu og Rúmeníu að tungumálið þeirra er rómanskt. Fólk tengir mikið við rómverska heimsveldið. Eftirminnilegast er að fyrir framan þjóðminjasafnið í Kísinev er stytta af Rómúlusi og Remusi að sjúga mjólk úr spena úlfynju. Textinn á stallinum er tilvitnun sem hægt væri að þýða “Við erum Rómverjar, við erum frá Dakíu Trajans”.

Ég heimsótti nokkur söfn. Miðaverðið var um tíu lei sem gera tæplega 80 krónur þó ég hafi splæst í tuttugu lei til að sjá allar sýningar á Þjóðminjasafninu. Ég get vel mælt með að heimsækja það safn. Margt áhugavert, flest vel merkt á ensku. Þarna lenti ég tvisvar í því að konur útskýrðu fyrir mér á moldóvsku, og mögulega líka rússnesku, að ég væri að fara vitlausa leið. Ég held að það hafi ekki verið minjagripabúð á safninu. Sá angi safnsins sem ég hélt að hýsti safnabúðina var í raun bara bókabúð. Sem var fínt.

Reyndar var fyrsta safnið sem ég heimsótti herminjasafnið. Eftirminnilegasti gripurinn var reyndar fyrir utan bygginguna, herþota af gerðinni MiG 15 (held ég). Mér þótti reyndar leiðinlegt að sjá að skrokkur vélarinnar var farinn að grotna svolítið niður. Þarna voru líka ýmsir skriðdrekar og önnur stríðstól.

Þegar ég kom inn í húsið vissi ég ekkert hvert ég ætti að fara en ég mætti síðan konu sem útskýrði fyrir mér á moldóvsku að ég þyrfti að fara upp stigann. Ég lenti í undarlegum samskiptum við konuna sem seldi miða. Hún virtist halda að ég væri að borga líka fyrir Pólverja sem var að koma eða kannski að ég vildi fá miða sem leyfði mér að ljósmynda á safninu. Þegar ég ætlaði að fara af stað fór hún að útskýra fyrir mér að ég væri ekki að fara rétta leið í gegnum safnið. Þetta var endurtekið af þremur öðrum konum sem fannst ég ekki standa mig sem safngestur.

Safnið var með töluvert af merkingum á ensku en stundum vantaði slíkt alveg. Munirnir voru af ýmsu tagi. Sumt var eins og hlutir sem ég hafði séð til sölu á flóamarkaðnum. Ég veit ekki hvort safnið verslar eitthvað þar.

Fyrir utan almennt sögulegt yfirlit var kannski áhugaverðast að sjá muni frá tímum Stalíns og lýsingar á refsingum og nauðungarflutningum. Stór hluti sýningarinnar var tileinkaður stríðinu í Transnistríu.

“Bessarabía er Rúmenía!”

Þegar Moldóva lýsti yfir sjálfstæði á sínum tíma vildu ekki allir tilheyra því ríki og svæði við landamæri Úkraínu lýsti sig sjálfstætt Sovétlýðveldi (sem enginn viðurkenndi). Ef ég skil rétt var ástæða þessa aðskilnaðar fyrst og fremst sá að mörgum sem ekki tilheyrðu “rúmenska” hluta þjóðarinnar hugnaðist ekki sá möguleiki að Moldóva myndi í framtíðinni sameinast Rúmeníu. Þannig að átök brutust út í einhvern tíma en þetta stríð hefur verið frosið í langan tíma. Lengst af var Úkraína á bandi Rússa í þessu máli og studdi aðskilnaðarsinna. Eftir að Rússar réðust á Krímskaga hefur það breyst og Transnistría er einangruð til austurs.

Stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á Moldóvu. Samkvæmt einhverjum heyrðust sprengingar í kringum hafnarborgina Ódessa alla leið til Kísinev. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022 flæddi fólk yfir landamærin í leit að skjóli. Það eru ennþá um hundrað þúsund úkraínskir flóttamenn í Moldóvu, flestir í Kísinev.

Rússneska var opinbert tungumál sovéska lýðveldisins Moldóvíu en þann 31. ágúst 1989 var því breytt í moldóvsku með latnesku letri (það er líka til kyrilískt letur fyrir tungumálið). Það er því ekki skrýtið að heyra og sjá rússnesku víða í borginni. Ég get engan veginn þekkt muninn á rússnesku og úkraínsku en mig grunar að margir sem ég heyrði tala hafi verið frá Úkraínu frekar en að tilheyra rússneska minnihlutanum.

Þriðja safnið sem ég heimsótti var stutt frá hótelinu mínu og var blanda af þjóðfræðisafni með þjóðbúningum, daglegum munum og alþýðulist og náttúrugripasafni. Satt best að segja þótti mér byggingin sjálf mest spennandi. Þarna var engin eldri kona til að skamma mig á moldóvsku, bara ungur maður að leiðbeina mér á ensku.

Sigurboginn

Kjarni miðborgar Kísinev eru tvö opin svæði. Annars vegar er það torg (eða mörg torg samtengd) þar sem er að finna dómkirkjuna og bjölluturn hennar og síðan sigurboga. Sigurboginn er til minningar um sigur Rússa á Tyrkjum og “frelsun” Moldóvu (eða Bessarabíu eins og Rússar kölluðu svæðið lengi vel) frá Ottómanveldinu sem hafði að mestu leyti leyft fólkinu að stjórna sér sjálft.

Dómkirkjan er í nýklassískum stíl. Að innan virtist hún vera eins og ég hef alltaf séð fyrir mér rétttrúnaðarkirkjur. Það eru ótal íkonar og aðrar málaðar myndir umkringdar gylltum skreytingum af ýmsu tagi. Þetta var sjaldgæft dæmi um kirkju sem ég hef heimsótt uppfulla af fólki sem tók trú sína mjög alvarlega. Trúræknin birtist helst í því að kyssa íkona. Þó voru líka ótal ferðamenn sem stundum signuðu sig áður en þeir tóku myndir þvert á reglur kirkjunnar. Ég braut óviljandi reglurnar þar sem ég var í stuttbuxum. Það var alveg bannað. Konur áttu líka að hylja sig að mestu. Það var samt enginn að reyna að framfylgja reglunum.

Eitt kvöldið var ég að ráfa þarna um þegar ég heyrði mann með gítar spila English-man in New York. Ég ætlaði ekki að stoppa en þá tók hann annað Sting-lag, Shape of My Heart. Þannig ég settist og hlustaði. Það var bæði sungið á ensku og moldóvsku (eða rúmensku). Því miður var flutningurinn á laginu Careless Whisper ekki frábær en það er líklega auðveldara að láta bera röddina sína saman við Sting frekar en George Michael.

Gítarleikarinn.

Ég átti erfitt með að skilja nákvæmlega hvað var að gerast þarna. Það kom reglulega annað fólk að syngja með gítarleikaranum. Ég veit ekki hvort það var fyrirfram ákveðið eða sjálfsprottið. Í áhorfendahópnum sem safnaðist saman var fólk sem skipti sér mikið af söngnum. Meðal annars ein eldri kona sem virtist vera á því að lagavalið væri ekki merkilegt.

Einn drukkinn maður var steinhissa á því að ég talaði hvorki moldóvsku né rússnesku og hvað þá að ég léti sjá mig á almannafæri án þess að vera með flöskuopnara, kveikjara eða húslykil. Hann fann þó að lokum kveikjara þannig að hann gat opnað bjórinn sinn. Samt hélt hann áfram að reyna að spjalla við mig.

Ská á móti torginu, hinum megin við götuna, er fallegur almenningsgarður þar sem greinilega eru reglulegir viðburðir. Við innganginn er lítið torg og stór stytta af Stefáni mikla prins. Téður Stefán er greinilega í miklum metum í Moldóvu og skreytir alla lei-seðla landsins. Þarna tók ég mynd af ungri konu. Án samhengis væri hægt að álykta að hún væri miður sín en í raun faldi hún andlitið af því að hún var svo niðursokkin í tónlistina sína.

Hlustað á tónlist

Það var tiltölulega auðvelt að taka strætó, sem eru hálfgerðir sporvagnar þar sem þeir eru tengdir við rafmagnsvíra, í Kísinev. Það kostaði heil sex lei (innan við fimmtíu kall) þannig að aðalvesenið var að hafa tilbúna smápeninga. Í hverjum vagni var síðan miðasali sem gekk fram og til baka um vagninn til að rukka.

Strætisvagn.

Í nágrenni við hótelið mitt voru tvö stór útivistarsvæði. Ég heimsótti fyrst Valea Morilor sem er í kringum samnefnt vatn. Svo virðist sem Leoníd Brézhnev hafi haft frumkvæði að því að taka í gegn svæðið á sínum tíma. Það var töluvert um fólk þarna. Mest var um að vera á ströndinni sjálfri en fólk var að róa á vatninu sjálfu og sumir syntu í vatninu (sem mér fannst ekki vera sérstaklega aðlaðandi). Annars fannst mér líka sérstaklega fallegar tröppurnar sem liggja niður að vatninu.

Hinum megin við vatnið var að finna styttu af Lenín með Marx sér á vinstri hönd (og mögulega Engels hinum megin). Þarna hitti ég tvær breskar konur og gantaðist með það að eina fólkið sem hefði áhuga á Lenín í Moldóvu væru ferðamenn.

Hitt útivistarsvæðið er stór garður sem kallast Dendrarium. Það er mikið og fallegt grænt svæði, blóm, tré, aðrar plöntur. Ég þurfti að splæsa heilum tíu lei til að komast inn og fannst það vel þess virði. Ég sá meira að segja froska á nykurrósablöðum (lilypad sem ég hef alltaf þýtt í huganum sem liljublöð en það er lítið í því) sem flutu á litlum tjörnum alveg eins og í teiknimyndum.

Að lokum má nefna Complexul Memorial Eternitate sem var reist til minnis um sovéska hermenn sem létust við að frelsa Moldóvu undan Þriðja ríkinu. Það er auðvitað flókin minning þar sem Sovétríkin höfðu nokkrum árum fyrr samið við nasista um að fá að eigna sér svæðið sem hafði verið hluti af Rúmeníu frá því stuttu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar.

Daginn áður en ég fór heim spjallaði ég við hótelstarfsfólkið (sem talaði góða ensku) um að panta fyrir mig leigubíl um miðja nótt. Það kom mér þægilega á óvart þegar mér var boðið að fá pakka með morgunverði (ávextir, brauðhorn og fleira) með mér á flugvöllinn.

Þessi ferð reyndi aðeins á þægindamörkin. Ég er greinilega of góðu vanur að geta bjargað mér á þessum tungumálum sem ég kann (mismikið). Mig langaði oft að geta talað við fólkið í kringum mig og spyrja það að einföldum spurningum um það sem ég var að sjá og upplifa. Ég saknaði slíkra samskipta.

Kafkaísk tilvitnun.