Það er meira en aldarfjórðungur síðan ég sá upprunalegu Nosferatu (1922). Á þeim tíma var einungis hægt að sjá myndina í skelfilega lélegri útgáfu, af myndbandsspóla sem var gerð eftir rispaðri og skemmdri filmu.
Ástæðan fyrir því hvernig komið var fyrir myndinni er áhugaverð í ljósi samspils menningar og höfundaréttar. Ekkja Bram Stoker taldi að myndina hugverkaþjófnað, einfaldlega eftirhermu af bókinni Dracula. Í kjölfarið var reynt að eyðileggja sem flest eintök af mynni.
Í dag er hægt að sjá myndina í mun betra ástandi og ég ætti líklega að kíkja á hana þannig. Samt hef ég á tilfinningunni að hún sé kannski hræðilegri í skelfilegum gæðum.
Ég er veikur fyrir vampírumyndum, þetta er líklega uppáhaldskvikmyndaskrýmslið mitt. Ég elska til Francis Ford Coppola’s Bram Stoker’s Dracula (1992) þrátt fyrir augljósa galla myndarinnar. Það er erfitt að gera góða vampírumynd.
Það hefur reynst mér vel að treysta á álit Joe Dante og Josh Olson í hlaðvarpinu The Movies That Made Me og því ákvað ég að drífa mig í bíó.
Yfir heildina var þetta frábær mynd. Það tókst sérstaklega vel að skapa andrúmsloft drunga og ógnar. Tónlistin var mjög góð en tapar eiginlega sjálfkrafa í samanburði við Drakúla frá 1992 sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér (Wojciech Kilar).
Myndin leyfir sér að taka sér tíma og það virkar mjög í fyrri hluta myndarinnar. Þegar nær dregur endinum hefði samt þurft að keyra á meiri hraða. Maltin myndi kannski segja að myndin þjáist af oflengd. En það er eiginlega eini raunverulegi galli myndarinnar.
Greifinn Orlok býr á slóðum Drakúla í Karpatafjöllunum. Það var aukaleg gleði fyrir okkur Gunnstein sem höfðum verið þarna í næsta nágrenni í fyrrasumar og heyrt rúmensku daglega á meðan. En Orlok talaði ekki rúmensku heldur útdautt dakískt tungumál (Dakía er fornt nafn á svæðinu). Kannski var það bara sænski hreimurinn (Bill Skarsgård) en mér fannst eins og ég ætti að skilja það sem greifinn var að segja.
Vampíran er vel heppnuð. Ég hafði áhyggjur af því að reynt yrði um of að herma eftir Nosferatu en svo var ekki. Þess í stað fáum við skugga af þeirri upprunalegu, og það virkar. Þessi Orlok brúar bilið milli Gary Oldman og Max Schreck.
Sögusvið myndarinnar er trúverðuglegt, bæði í Þýskalandi og Rúmeníu. Ég geri fastlega ráð fyrir að tölvubrellur hafi verið notaðar til að afmá ummerki nútímans en ég tók aldrei eftir neinu.
Það er óneitanlegur feminískur blær á myndinni sem ég man ekki eftir úr eldri útgáfum á sögunni. Staða kvenna í þessu samfélagi (Þýskaland á fyrri hluta 19du aldar) skiptir töluverðu máli í framvindunni. Gallinn á því er kannski sá að það setur kvenpersónur of oft til hliðar. Einungis Ellen (Lily-Rose Depp var frábær) er virkur þátttakandi. Vinkona hennar fær litlu áorkað.
Willem Dafoe var auðvitað góður í Van Helsing hlutverkinu. Það truflaði mig smá að ég var alltaf að hugsa hvaðan ég þekkti Nicholas Hoult (eiginmanninn). Ég vissi að ég hefði séð hann yngri. Mun yngri sá ég þegar ég fletti honum upp. Hann var í About A Boy (2002). Ég hef svosem séð hann í öðru, s.s. The Great (2020-2023), en hausinn minn hefur greinilega ákveðið að ég ætti fyrst og fremst að tengja hann við stráksa.
Ég mæli með Nosferatu fyrir fólk sem er hrifið af hryllingsmyndum af gamla skólanum, sumsé myndir sem eru ekki bara að reyna að láta áhorfendum bregða. Ég mæli ekki með myndinni fyrir fólk sem telur að það sé góð hugmynd að draga fram símann sinn í kvikmyndasal.