Thelma (2024) 👍👍 {4-4-3-ø}

Ég næ varla að æsa mig þó örlög heimsins ráðist af því hvort að hasarmyndahetjur nái að ljúka sínum verkefnum. Þannig að Thelma var ferskur andardráttur.

Sjálfstæð og þrjósk kona á tíræðisaldri ákveður að leita uppi menn sem sviku af henni fé. Hennar hetjuför er mannleg. Við skiljum hana.

Þegar tölvuhakkari í njósnagengi nær að slá nógu oft á takkborðið sitt til að slökkva á öryggiskerfinu þá hafa áhorfendur enga hugmynd um hve erfitt það var. Við höfum hins vegar mörg þurft að eiga við þrjóska mús sem hreyfist varla nema við hömumst á henni. Mannlegt og hversdagslegt.

Sem spennumynd greip myndin mig en hún er líka með fyndnari myndum sem ég hef séð undanfarið.

June Squibb var frábær í titilhlutverkinu.

Mæli með. Fyrir eiginlega alla.