Kisi/Straume/Flow (2024) 🫳 {5-5-4-2}

Kannski að byrja á því að segja að ég var frekar pirraður eftir að hafa verið vísað í rangan sal og misst af upphafi myndarinnar. Það er líka rétt að nefna að ég var búinn að sjá myndina á mörgum topplistum þannig að ég hafði mögulega hærri væntingar en aðrir. Fjölskyldan var hrifnari en ég hafði líka passað að tala ekki mikið um hvernig dómarnir hefðu verið.

Það er illskiljanlegt að þýða titilinn á myndinni með þessum metnaðarlausa Kisa. Satt best að segja hefði ég ekki tekið eftir henni nema af því ég hafði séð erlendar útgáfur af veggspjaldinu. Mér finnst þýðingin líka brjóta gegn þema myndarinnar um vináttu og samvinnu. Straumur hefði verið betra.

Það sem ég hafði lesið og heyrt um myndina gaf mér þá ímynd að það væri meira raunveruleiki fólginn í þessum teiknimyndadýrum en þeim sem við sjáum venjulega. Dýrin hegðuðu sér eins og dýr í teiknimyndum nema að þau gátu ekki spjallað.

Einhver hafði kvartað yfir því að flóðið sem sýnt er í myndinni væri óraunverulegt. Ég gaf ekki mikið fyrir það fyrirfram en … þetta var alveg gjörsamlega fáránlegt magn af vatni.

Það má segja að myndin sé að reyna að gera tvennt í einu, hafa dýrin raunverulegri en í öðrum teiknimyndum en láta heiminn sjálfan vera á köflum súrrealískan. Það hitti ekki í mark hjá mér. Sérstaklega þetta mystíska atriði í síðasta hluta myndarinnar.

Auðvitað er ég hrifinn af því að opinn og frjáls hugbúnaður (Blender) sé notaður í að gera teiknimyndir en stíllinn heillaði mig ekki. Mér fannst þetta var svolítið í svona rótóskóp stíl. Þetta sást kannski helst á labradornum þar sem áferðin á honum hvarf reglulega nær alveg.

Annars fín teiknimynd um dýr og vináttu með þeirri áhugaverðu nálgun að dýrin geta ekki talað.